Önnur umræða um útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra er aftur á dagskrá í dag en umræðan hefur staðið í yfir 70 klukkustundir.
Þingmenn Pírata hafa staðið í vegi fyrir því að málið komist í þriðju umræðu. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Píratar náði þeim árangri að flytja 100. ræðuna sína um málið í gær en allt stefnir í að hún verði ekki eini þingmaður Pírata til að ná þeim áfanga.
Andrés Ingi Jónsson mun halda sína 85. ræðu um málið í dag og Björn Leví Gunnarsson sína 84. ræðu.
Andrés Ingi lagði til dagskrártillögu á síðasta þingfundi að útlendingafrumvarpið yrði tekið af dagskrá fundarins í dag. Þingmenn þurftu því að greiða atkvæði um tillögu Andrésar við upphaf þings í hádeginu.
Andrés gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagði að með því að fjarlægja útlendingafrumvarpið af dagskrá.
„ Með þessari tillögu gefst tækifæri til að liðka fyrir umræðu um þau stjórnarfrumvörp sem hafa beðið annarri umræðu í tvær vikur vegna þess að forseti velur að setja þau alltaf á eftir útlendingafrumvarpinu,“ sagði Andrés en Píratar hafa ýtt eftir því að frumvarpið verði sent aftur til allsherjar- og menntamálanefndar í nokkrar vikur núna.
„Beita sér í grímulausu málþófi“
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerði einnig grein fyrir atkvæði sínu og gaf lítið fyrir skýringar Andrésar um að það væri forseta Alþingis að kenna að önnur málefni næðu ekki á dagskrá.
„Fyrst hér er komið inn á það hvaða mál við viljum gjarnan, og kannski ég sem fjármála- og efnahagsráðherra, að komist á dagskrá hér á þinginu, þá er sjálfsagt að greina frá því að ég er t.d. þeirrar skoðunar að þegar menn haga sér eins og gert er í þessu máli sem hér hefur verið á dagskrá undanfarna daga, að beita sér í grímulausu málþófi en þykjast vera á sama tíma að greiða fyrir störfum þingsins, þá dragi töluvert úr virðingu fyrir þingstörfunum og stjórnmálastarf í landinu.“
„ Þegar þingið sýnir ekki getu til þess að leyfa meirihlutaviljanum að ná fram að ganga og þeirri forgangsröðun sem yfirgnæfandi meiri hluti þingmanna er sammála um að þurfi að vera hér, vegna þess að örfáir þingmenn taka þingið í gíslingu svo dögum skiptir, þá sé það slæmt fyrir orðspor Alþingis. Það sé vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og það sé alls ekki til heilla fyrir þjóðina,“ sagði Bjarni.
„Ég segji bara hættiði málþófinu og höldum áfram að vinna vinnuna okkar,“ sagði Bjarni að lokum og uppskar nokkur „heyr heyr“ úr salnum.
Tillaga Andrésar var felld með 29 atkvæðum gegn og 6 atkvæðum með, 10 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Andrés mun því flytja 85. ræðuna sína um útlendingafrumvarpið seinna í dag.