Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, sagði í gær þjóð sinni að „hætta að væla“ yfir COVID-19 faraldrinum sem leikið hefur landið grátt. Aldrei hafa fleiri látist vegna hans í einu landi en Brasilíu á miðvikudaginn eða 1.910 manns. Forsetinn hefur áður kallað COVID „flensu“ og er mjög ósáttur við sóttvarnatakmarkanir sem margir ríkisstjórar í Brasilíu hafa sett.
Nýtt afbrigði sjúkdómsins á upptök sín að rekja til brasilísku borgarinnar Manaus og samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum nýrrar rannsóknar er það meira smitandi en önnur og virðist geta smitað þá sem hafa áður fengið önnur afbrigði COVID-19.
Nú þegar hefur afbrigðið greinst í meira en 20 löndum, þar á meðal Bandaríkjunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að enn hefði það ekki fundist hér, hvorki innanlands eða á landamærunum.
Þrátt fyrir að dauðsföll í Brasilíu vegna faraldursins séu þau næst flestu í heiminum á eftir Bandaríkjunum er Bolsonaro harðorður.
Það þolir þetta enginn lengur
„Hættið að væla. Hversu lengi ætlið þið að gráta yfir þessu? Hversu lengi ætlarðu að halda þig heima og loka öllu? Það þolir þetta enginn lengur. Við sjáum eftir andlátunum, aftur, en við þurfum að leysa málið,“ sagði hann í gær.
Bolsonaro hefur frá upphafi verið andsnúinn sóttvarnatakmörkunum sem ríkisstjórar hafa gert og segir að áhrifin á efnahaginn séu verri en faraldursins.
Ríkisstjóri Sao Paulo, João Doria, sagði við breska ríkisútvarpið BBC að forsetinn væri „klikkaður“ fyrir að ráðast gegn ríkisstjórum og borgarstjórum sem væru að reyna að afla bóluefnis og hjálpa landinu að ráða niðurlögum faraldursins. „Því miður þarf Brasilía á þessari stundu að berjast gegn tveimur veirum: kórónaveirunni og Bolsonaroveirunni,“ sagði Doria.