Icelandair hefur nú tilkynnt að félagið sé hætt við að áætlunarflug sitt til bæði Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum og Halifax í Kanada vegna vandræða með Boeing 737 MAX vélarnar. Allar slíkar vélar voru kyrrsettar eftir að 346 einstaklingar fórust í tveimur flugslysum slíkra véla. Ekki er ljóst hversu lengi þær verða kyrrsettar og því hafa flugfélög víða um heim þurft að breyta áætlunarflugi sínu.

Ekki er ljóst hvort áætlunarflug Icelandair til Halifax og Cleveland hefur verið lagt niður tímabundið eða til frambúðar. Flugmálayfirvöldum í bæði Cleveland og Halifax var tilkynnt um breytingarnar á mánudag. Heimasíða Icelandair virðist vera uppfærð miðað við þessar upplýsingar.

Icelandair hóf áætlunarflug til Cleveland í mars í fyrra en félagið tilkynnti nýlega að þau hafi ætlað að hefja á ný áætlunarflug til Halifax í sumar.

Yfirmaður flugvallarins í Cleveland, Robert Kennedy, sagði í viðtali við Cleveland19 News að Icelandair hafi tilkynnt honum um breytingarnar síðasta mánudag.

„Þótt við urðum fyrir vonbrigðum með fréttirnar, sýndi viðbót þjónustu frá Icelandair og WOW Air styrk og eftirspurn frá Cleveland og norðanverðu Ohio fyrir því að heimsækja Evrópu,“ sagði Kennedy.

Talskona flugvallarins í Halifax sagði í gær að Icelandair hefði gert ráð fyrir því að manna flug sín til Halifax með Boeing 737 vélum sem, eins og greint hefur verið frá, eru kyrrsettar um allan heim.

Í frétt kanadíska miðilsins The Chronicle Herald er greint frá því að Icelandair hafi alls 33 flugvélar í áætlunarflug og hafi þurft að finna nýjar leiðir til að halda öllu áætlunarflugi eftir að tilkynnt var um kyrrsetningu 737 MAX vélanna.