Mikill meiri­hluti jarð­efna­elds­neytis­birgða heimsins sem eru í eigi ríkis­stjórna og fyrir­tækja verða að liggja ó­hreyfð í jörðu niðri ef forða á heiminum frá lofts­lags­ham­förum. Þetta kemur fram í nýrri greiningu sem birt var í vísinda­ritinu Nature og fjallað er um í The Guardian.

Sam­kvæmt rann­sókninni má ekki vinna 90 prósent af kola­birgðum og 60 prósent af olíu- og gas­birgðum heimsins ef mann­kynið á að eiga 50 prósenta mögu­leika á því að halda hita­stigi jarðarinnar innan við 1,5 gráðum, mark­miði Parísar­sam­komu­lagsins.

Greiningin er fyrsta slíka vísinda­lega matið sem gert hefur verið og sýnir skýrt af­tenginguna á milli mark­miða Parísar­sam­komu­lagsins og stækkunar­á­forma jarð­efna­elds­neytis­iðnaðarins. Vísinda­mennirnir lýsa á­standinu sem „al­gjör­lega ör­væntingar­fullu“.

„Greiningin gefur í skyn að mörg af yfir­standandi og fyrir­huguðum jarð­efna­elds­neytis­á­forum eru ó­líf­væn­leg,“ segja rann­sak­endurnir.

Þetta þýðir að trilljónir dollara af fjár­munum sem bundnir eru í jarð­efna­elds­neytis­verk­efni gætu orðið verð­lausir. Ný jarð­efna­elds­neytis­verk­efni myndu að­eins borga sig ef fjár­festar þeirra tryðu því ekki að heimurinn myndi takast á við lofts­lags­vandann, segja rann­sak­endurnir.

Niður­stöður skýrslunnar mála upp dökka mynd fyrir jarð­efna­elds­neytis­iðnaðinn og gefa í skyn að fram­leiðsla olíu, jarð­gass og kola þurfi þegar að hafa náð há­punkti og verði að dragast saman um 3 prósent á ári héðan af. Lönd sem reiða sig að miklu leyti á tekjur frá sölu jarð­efna­elds­neytis, svo sem Sádi-Arabía og Nígería, eru sér­stakri hættu. Ráð­herra eins Opec ríkis varaði ný­lega við ó­eirð og ó­stöðug­leika í slíkum ríkjum ef þau auka ekki fjöl­breytni efna­hags síns í tæka tíð.

Í rann­sókninni segir að til að halda meðal­hita­stigi heimsins undir 1,5 gráðum verði Banda­ríkin, Rúss­land og fyrrum aðildar­ríki Sovét­ríkjanna, sem búa yfir helmingi allra kola­birgða heimsins, að halda 97 prósentum þeirra í jörðu niðri. Kína og Ind­land, sem búa yfir fjórðungi allra kola­birgða heimsins, verða hins vegar að halda 76 prósentum þeirra í jörðu.

Ríkin í Mið-Austur­löndum búa yfir rúm­lega helmingi af öllum olíu­birgðum heimsins en munu þurfa að halda nærri tveimur þriðju þeirra í jörðu á meðan að 83 prósent af olíu­birgðum Kanada verða að liggja ó­hreyfð.

Svo gott sem allt jarð­efna­elds­neyti sem fengið er með ó­hefð­bundnum að­ferðum svo sem vökva­broti (e. fracking) verður að liggja ó­hreyft í jörðu og ekkert jarð­efna­elds­neyti má vinna úr norður­heim­skautinu.

„Þetta er al­gjör­lega ör­væntingar­fullt. Við erum hvergi nærri mark­miðum Parísar­sam­komu­lagsins þegar kemur að því jarð­efna­elds­neyti sem fólk hefur í hyggju að fram­leiða,“ segir Paul Ekins prófessor við Uni­versity College í London.