Elkjøp og Komplett, raftækjaverslanir í Noregi, hafa hætt sölu á rafhlaupahjólum sem fara á meira en 20 kílómetra hraða á klukkustund um tíma.

Ákvörðunin um að hætta sölunni var tekin eftir að samgönguyfirvöld í Noregi úrskurðuðu að rafknúin hlauphjól sem komast hraðar en á 20 kílómetra hraða væru ólögleg á götum Noregs sem og einkavegum og gangstéttum.

Forsvarsaðili Eljkjøp, Madeleine Schøyen Bergly, bendir þó á í samtali við fréttamiðilinn tek.no að salan á hlaupahjólunum sé ekki ólögleg en þau hafa hætt að kaupa inn hlaupahjól frá birgjum sem komast hraðar en á 20 km hraða í bili.

Hlaupahjólin falla ekki í neinn skilgreindan flokk um vélknúin ökutæki og því hafa risið deilur um lögmæti hlaupahjólanna milli seljenda þeirra og samgönguyfirvalda í Noregi.

Vinsældir kalla á reglugerðir um notkun

Ýmis lönd í Evrópu hafa brugðist við síauknum vinsældum rafhlaupahjólanna með því að setja reglugerðir varðandi notkun þeirra. Eru hjólin sem dæmi lögleg til notkunar á götum Þýskalands og Frakklands að hámarki á 20 km hraða en viðurlög eru við því að keyra þau á gangstéttum.

Rafhlaupahjólin eru enn ólögleg bæði á gangstéttum og götum Bretlands og hafa neytendur þar í landi kallað eftir reglugerð sem leyfa hjólin vinsælu.

Að minnsta kosti 11 dauðsföll hafa orðið í Bandaríkjunum síðan í byrjun árs 2018 samkvæmt fréttastofu AP. Misjafnt er eftir svæðum hvort notkun hlaupahjólanna sé leyfð þar en þau eru til dæmis alfarið bönnuð í New York.

Hámarkharði á Íslandi 25 km/klst

Hámarkshraði rafdrifinna hlaupahjóla á Íslandi er 25 kílómetrar á klst. Rafdrifin hlaupahjól sem komast ekki hraðar en á 25 kílómetra hraða á klukkustund eru ekki skráningarskyld og falla því undir sama flokk og reiðhjól og eru því leyfileg á götum borgarinnar og gangstéttum á hámarkshraða 25 km/klst. Á gangstéttum eru gangadi vegfarendur þó alltaf í rétti.