Reykja­vík Kol­beinn Hreins­son, fram­kvæmda­stjóri M1 sem vinnur að múr- og steypu­við­gerðum á Hall­gríms­kirkju, hefur neyðst til að breyta verk­lagi með þeim af­leiðingum að verkið verður erfiðara og taf­samara að hans sögn.

Á­stæðan er að krakkar nýttu veggs­tillansa til að klifra upp í mikla hæð. Einn þeirra birti TikTok-mynd­band af at­hæfinu.

Um leið og Hall­gríms­kirkju bárust fregnir af málinu var haft sam­band við verk­takann.

„Við töldum áður en þetta kom upp að við hefðum gert allar öryggis­ráð­stafanir sem þurfti,“ segir Kol­beinn. Hann segir að svæðið hafi áður verið girt af. Enginn hafi átt von á að ung­menni færu án öryggis­búnaðar líkt og kóngu­lær upp veggi kirkjunnar.

„Nú eru engir pallar til að klifra eftir þegar við erum ekki að störfum. Við þurfum að rífa pallana niður og reisum þá í hvert skipti sem við þurfum að vinna þarna uppi,“ segir Kol­beinn.

Hann segir að fyrir vikið verði verkið erfiðara og taf­samara.

„Það þurfti ein­beittan brota­vilja til að komast þarna upp,“ segir Kol­beinn.

Sig­ríður Hjálmars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Hall­gríms­kirkju.
Mynd/Aðsend

Sig­ríður Hjálmars­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Hall­gríms­kirkju, segir að fólk hafi gripið andann á lofti og að hún hafi strax rætt við verk­takana þegar heyrðist af TikTok-mynd­bandinu. Verk­takinn hafi brugðist leiftur­snöggt við.

„Það er mjög leitt að þetta hafi gerst. Svæðið var lokað af og það átti ekki að vera hægt að fara upp með stil­lönsunum. En við tókum þessu öll al­var­lega og vonandi er þetta mál úr sögunni,“ segir Sig­ríður.

Saga Hall­gríms­kirkju, ein­kennis­tákns Reykja­víkur, hefur verið saga verk­pallanna í tímans rás. Bæði Sig­ríður og Kol­beinn óska þess að störf geti nú haldið á­fram án truflunar. Fram­kvæmdir munu standa yfir við þennan verk­þátt í allan vetur.

Ekki þarf að hafa mörg orð um hve heppnir krakkarnir voru að skaða sig ekki, enda fóru þeir upp í 15–20 metra hæð.

„Þetta er stór­hættu­legt,“ segir Sig­ríður.