Sjónvarpsstöðin ITV hefur ákveðið að hætta framleiðslu á Jeremy Kyle Show í kjölfar þess að gestur í þættinum lést með sviplegum hætti. Þetta kemur fram á vef BBC.

Maðurinn, Steven Dymond, fannst látinn 9. maí, viku eftir að þáttur, þar sem hann var á meðal þátttakenda. Breskir fjölmiðlar greina frá því að talið sé að hann hafi svipt sig lífi. Krufning hefur þó ekki farið fram.

Þátturinn hafði ekki verið sýndur. Þættirnir fjölluðu alla jafna um deilur á milli fjölskyldumeðlima eða vina, þar sem Jeremy Kyle reyndi að miðla málum.

Í upptökum umrædds þáttar var Dymond meðal annars látinn gangast undir lygamæli. BBC hefur eftir einum áhorfanda í setti að Dymond hafi fallið saman og brostið í grát þegar í ljós kom að hann stóðst ekki lygaprófið. Í því var hann spurður um framhjáhald.

Þátturinn hefur verið á dagskrá í 14 ár. Gagnrýnendur hans hafa að sögn BBC bent á að í honum sé fólk, sem oft glímir við fíkn eða andleg veikindi, berskjaldað. Í þættinum sé fólkið afhjúpað með hætti sem það sá ekki fyrir.

„Í ljósi alvarleika þeirra atburða sem upp hafa komið höfum við ákveðið að hætta að framleiða Jeremy Kyle Show,“ segir Carolyn McCall, framkvæmdastjóri ITV í yfirlýsingu.