Frumvarp um neyðarlög verða lögð fyrir ungverska þingið í vikunni sem myndu gefa Viktor Orban, forsætisráðherra, einræðisvald. Þrátt fyrir að það ástand sem hefur skapast vegna COVID-19 sé aðeins tímabundið, er tímarammi frumvarpsins það ekki.

Í Rússlandi stendur til að kjósa um stjórnarskrárbreytingar sem engum dylst að séu til þess fallnar að framlengja valdatíð Vladimir Pútin og í Ísrael hefur Benjamin Netanyahu, lokað þinginu og hamlar þar með stjórnarskiptum undir forystu höfuðandstæðings síns, Benny Gantz.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að á tímum sem þessum sé hætt við því að valdboðsöfl geti hrifsað til sín völd, hert þau eða náð sér niðri á andstæðingum. Og óvíst hvenær eða hvort klónni verði sleppt. Hafa verði þó í huga að víða sé nauðsynlegt að virkja neyðarráðstafanir þar sem farið er fram hjá hefðbundnum lýðræðislegum ferlum og stjórnskipulegu aðhaldi. „Vandinn er að skilja á milli þeirra þátta þar sem er raunveruleg nauðsyn á slíku og þar sem menn eru að nýta sér ástandið,“ segir Eiríkur. „Og það getur verið flókið.“

Frönsk stjórnvöld fengu harða gagnrýni fyrir að leyfa fyrri umferð sveitarstjórnarkosninga að fara fram og seinni umferðinni hefur verið frestað. Þá hefur forvalskosningum í sjö fylkjum Bandaríkjanna einnig verið frestað vegna COVID-19. Lítil þolinmæði er fyrir hörðum stjórnmáladeilum og er frekar kallað eftir eintóna boðskap og afgerandi ákvörðunum.

F58101116 erlent 4.jpg

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands

Eiríkur segir ákaflega mikilvægt að vernda lýðræðið á tímum sem þessum, því annars er hætt á að einhver lönd steypist í harðræði. „Enn er ekkert komið fram sem segir að þetta ástand eigi að þurfa að vega að lýðræðinu en rétt að vera á varðbergi gagnvart slíkum tilburðum sem gætu komið fram í einhverjum hornum heimsins,“ segir hann.

Eiríkur hefur rannsakað og fylgst vel með pópulískum stjórnmálamönnum og hreyfingum, sem hefur vaxið ásmegin og eru á mörgum löndum komin til valda. „Vissar afleiðingar þessarar þróunar eru að birtast okkur núna í stjórnmála og stjórnunaróreiðu,“ segir hann og vísar til stjórnar Trump í þessu samhengi. „Í Bandaríkjunum skortir nú forystu sem áður hefði verið til staðar en í stað þess situr fólk sem ekki er þjálfað til að takast á við pólitísk og þjóðfélagsleg áföll. Það hefur verið grafið undan stjórnkerfinu, áliti sérfræðinga og fagmennsku í stjórnun.“ Annað land sem Eiríkur nefnir er Ítalía, þar sem pópúlismi hefur lengið verið mikill og gæti skýrt hvers vegna stjórnmálamenn voru seinir til viðbragða.

Þetta geti þó verið tvíeggja sverð. „Í aðra röndina minnir svona ástand okkur á mikilvægi faglegrar stjórnsýslu og að ákvarðanir séu byggðar á vísindum,“ segir Eiríkur og vísar til Íslands og flestra ríkja sem búa við frjálslynt lýðræði. „En að sama skapi getur ástandið valdið því að lukkuriddarar geta misnotað þann ótta sem skiljanlega grípur um sig.“

Hvað Ungverjaland varðar, þá eru valdstjórnartilburðirnir ekki nýjir af nálinni heldur hefur stjórnin verið að færast til harðræðis frá 2010, í tíð Orban. „Þetta er enn eitt skrefið í þá átt en mjög ákveðið skref,“ segir Eiríkur og metur það svo að Evrópusambandið, sem gefur sig út fyrir að vera framvörður frjálslynds lýðræðis og mannréttinda, muni neyðast til að takast á við vandamál sem þessi í framtíðinni. Ungverjaland sé þar ekki einsdæmi, og til dæmis Pólland hafi verið að feta sömu slóð. En sambandið hefur átt við mörg önnur vandamál að etja, svo sem fjármálakrísuna, Evrukrísuna, flóttamannabylgjuna og Brexit.