Veðurstofan spáir stífri suðaustan- og austanátt, á bilinu þrettán til 20 metrum á sekúndu víða um land í dag. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum en rigningu af og til annars staðar á landinu. Í gildi er óvissustig vegna ofanflóðahættu á Austurlandi.
Þar er spáð uppsafnaðri úrkomu á bilinu 100 til 200 millimetrum og vot snjóflóð eða krapaflóð og skriður gætu fallið. Metið verður í dag hvort grípa þurfi til aðgerða vegna veðursins á Seyðisfirði, þar sem flóð féllu í desember.
Í gildi er gul viðvörun á Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendinu. Á Miðhálendinu fellur hún úr gildi þegar líður á morguninn en hinar gilda fram á nótt.
Seinnipartinn í dag dregur úr vindi og úrkomu og verður vindur sunnan átta til fimmtán metrar í kvöld með skúrum en austast á landinu verður enn umtalsverð rigning. Hiti víðast hvar tvö til átta stig.
Útlit er fyrir sunnan átta til þrettán metra vind og skúri eða rigningu en bjart norðan- og norðaustanlands og hiti breytist lítið.
Vetrarfærð er á norðurhluta landsins, einkum á fjallvegum. Búast má við snörpum vindhviðum við fjöll á Suður- og Suðausturlandi í dag.
Herjólfur gat ekki siglt til Vestmannaeyja á föstudag og í gær en gat siglt í morgun.