Töluverð hætta er á snjóflóðum í fjöllum á Tröllaskaga og í Eyjafirði, segir Sigurdís Björg Jónsdóttir, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofunni.

Talsvert hefur snjóað á norðurhluta landsins síðustu daga og norðlægar átti hafa verið ríkjandi. Sigurdís segist ekki hafa áhyggjur af snjóflóðum í byggð. „Fólk sem ætlar að vera á fjöllum þarf virkilega að kanna aðstæður og fylgjast með spám því það er töluverð hætta á stórum flóðum,“ segir hún.

Sigurdís Björg Jónsdóttir, snjóflóðasérfræðingur á Veðurstofunni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sigurdís segir að í mikilli froststillu um jólin hafi myndast hrímlag á fjöllum og að á sunnudaginn hafi fallið mikill snjór ofan á hrímið. „Við erum hugsi yfir því að þetta geti myndað mikla snjóflóðahættu.“

Þá segir Sigurdís að ekki hafi sést nein snjóflóð í fjöllunum í gær, þó sé vitað af einu flóði sem féll í fyrradag.

Næstu daga er spáð áframhaldandi norðanátt og éljagangi svo enn mun bæta í snjó á Norðurlandi. „Á laugardaginn er svo von á miklu hvassviðri og snjókomu sem gæti valdið enn meiri snjóflóðahættu.“