Leit að Axel Jósefs­son Zarioh sem til stóð að fram færi í dag hefur verið frestað vegna veðurs samkvæmt Hjalta Bergmari Axelssyni, aðalvarðstjóra á Egilsstöðum.

„Vindur og talsverður sjógangur er í Vopnafirði og leitarskilyrði því til leitar slæm og ekki unnt að halda henni áfram í dag,“ segir Hjalti.

Stefnt er að leit á morgun, sunnudag, og vinnur lögreglan að skipulagi leitar morgundagsins.

Axel Jósefs­son Zarioh var skipverji á ­skip­inu Erl­ing KE-140 í eigu Saltver ehf. sem Brim hf. gerir út og er talið að hann hafi fallið fyrir borð á leiðinni til hafnar síðastliðinn mánudag. Hann er á ní­tjánda aldurs­ári og er bú­settur í Kópa­vogi.

Leitarsvæðið nær yfir allan Vopnafjörð, frá Bjarnarey í austri að Strandhöfn í norðri og inn í Sandvík og búið er að fínkemba svæðin og leita fjörurnar oftar en einu sinni, bæði af landi og sjó.