Trans konan Alexandra Briem skipar þriðja sætið á framboðslista Pírata í borginni. Hún bíður þess nú að embætti landlæknis taki fyrir beiðni hennar um nafnabreytingu þannig að hennar rétta nafn og kyn komi fram á kjörseðlinum.

Hún segir í samtali við Fréttablaðið að tíminn sé naumur og svifaseint. „Þetta er bara svolítið bras og í síðustu tvö skiptin sem ég hef reynt að fá svör hjá landlæknisembættinu hefur mér ekki tekist að fá samband við einu manneskjuna þar sem getur svarað einhverju um þetta.“

Alexandra segir talsvert þurfa að hafa fyrir að safna saman öllum þeim gögnum sem þurfa að fylgja umsókn um staðfestingu á að tilheyra gagnstæðu kyni. „Ég er búin að fylla út öll eyðublöð og öll gögn eiga að vera komin inn. Það tók samt langan tíma og það er ekki nema rétt rúm vika síðan ég gat skilað þessu öllu.

Hver er þessi Andrés?

Svo þarf þetta víst að fara fyrir einhvern fund hjá landlæknisembættinu og þar hefur ekki verið hægt að segja mér hvenær hann verður. Síðan veit ég ekki hvort það verði einhver auka bið hjá Þjóðskrá eftir það. Þetta verður tæpt ef það gengur upp yfir höfuð,“ segir hún.

Alexandra, sem hét áður Andrés Helgi, segir að fyrir sér, eins og öðru trans fólki, sé það heilmikið mál að geta ekki fengið að bera rétt nafn og fá þannig sitt rétta kyn viðurkennt.

„Mér finnst þetta vera heilmikið mál og þetta nístir. Ég fer alltaf pínu í keng þegar ég þarf að svara einhverju frá hinu opinbera og það er leiðinlegt fyrir mig ef ég þarf að skila inn framboðslista með gamla nafninu.

Fyrir utan að allt mitt kynningarstarf er og hefur verið undir nafninu Alexandra og svo á fólk eftir að koma inn í kjörklefann og spyrja sig að því hver þessi Andrés í þriðja sætinu sé. Mér finnst frekar leiðinlegt ef sú verður raunin.“