Þing­menn stjórnar­and­stöðunnar gagn­rýndu ríkis­stjórnina harð­lega í störfum þingsins í dag. Krist­rún Frosta­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, sagði Katrínu Jakobs­dóttur virðast vera hætta í pólitík og að bæði Vinstri græn og Fram­sókn hafi gengið inn í full­mótað kerfi Sjálf­stæðis­flokksins og að hendur allra væru bundnar. Þing­menn Sam­fylkingar og Við­reisnar minntu á kröfu stjórnar­and­stöðunnar um að sett verði á stofn rann­sóknar­nefnd til að rann­saka ný­legt út­boð ríkisins á hlut þess í Ís­lands­banka.

„Svo mætir hæst­virtur fjár­mála­ráð­herra með blússandi hroka eftir páska­frí og er kominn með nýja nálgun. Af­neita, af­neita. Já, það skiptir máli hver stjórnar. En hér eru það ekki Vinstri græn og það virðist engu máli hafa skipt þótt fólk hafi kosið Fram­sókn. Þessir flokkar hafa enn tæki­færi til að sýna að þau eru ekki hætt í pólitík með því að hætta þessari með­virkni með Sjálf­stæðis­flokknum,“ sagði Krist­rún á þinginu í dag.

Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, sagði að völdum fylgi á­byrgð og að þegar mis­tök eru gerð þá þurfi að axla á­byrgð á þeim.

„Að minnsta kosti með því að horfast í augu við mis­tökin og viður­kenna þau,“ sagði Þor­gerður Katrín í um­ræðum um störf þingsins í dag þar sem hún einnig minntist á nýjar niður­stöður könnunar Maskínu um traust til ráð­herra ríkis­stjórnarinnar en fáir bera mikið traust til ríkis­stjórnarinnar sam­kvæmt henni.

Hún spurði hvort að ekki væri til­efni til að læra af sögunni með því að hefja ítar­lega rann­sókn á út­boði ríkisins á sölu á hlut þess í Ís­lands­banka?

„Þessi bolti er í höndum ríkis­stjórnarinnar og sömu­leiðis á­byrgðinni af því hvernig fer. Hún getur enn átta sig á að­stæðum en ef ekki þá verður ein­fald­lega annar leik­manna bekkur að stíga inn í leikinn og sinna sínum skyldum,“ sagði Þor­gerður Katrín á þingi.

Innihaldslaust hjal að það þurfi að tæma önnur úrræði

Helga Vala Helga­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, minnti á kröfu stjórnar­and­stöðunnar að sett væri á stofn rann­sóknar­nefnd um sölu Ís­lands­banka og sagði stjórnar­flokkanna vera að tefja málið með því að setja hana ekki á stofn.

„Með því að tefja er meiri­hlutinn ein­fald­lega að þvælast fyrir rann­sókninni. Það er ekkert sem Ríkis­endur­skoðun rann­sakar sem ekki er hægt að fela rann­sóknar­nefnd Al­þingis að klára,“ sagði Helga Vala og að stjórnar­and­staðan muni á­fram berjast fyrir því að al­vöru rann­sókn fari fram.

Þing­menn stjórnar­flokkanna ræddu málið líka en Jó­dís Skúla­dóttir, þing­kona Vinstri grænna, sagði að það væri verið að bregðast við málinu og að það væri verið að rann­saka það.

Hún sagði það ekki auka traust í sam­fé­laginu að það væri ó­reiða í um­ræðunni og sagði það ekki rétt að stjórnar­flokkarnir vilji ekki skipa rann­sóknar­nefnd heldur benti á að það væri seinasta úr­ræði sem ætti að nýta þegar búið væri að nýta öll önnur úr­ræði. Hún sagðist ekki heldur sátt við það hvernig salan fór fram og að hún vilji að hún verði skoðuð og að í kjöl­farið verði teknar á­kvarðanir um hvernig betur megi standa að sölu ríkis­eigna.

Þórunn Svein­bjarnar­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar, sagði það inni­halds­laust hjal að það þyrfti að tæma önnur úr­ræði áður en rann­sóknar­nefnd væri sett á stofn.

Sig­mar Guð­munds­son, þing­maður Við­reisnar, ræddi einnig út­boð bankans í um­ræðunum og gagn­rýndi að Banka­sýslan væri sú eina sem væri rekin þegar þau fram­kvæmdu út­boðið í nánu sam­starfi við yfir­völd. Hann, eins og aðrir, kallaði einnig eftir ítar­legri rann­sókn.

„Þetta kallar á eins ítar­lega rann­sókn á öllu ferlinu og unnt er að setja í gang. Annað er ekki hægt að sætta sig við og það er dapur­legt að stjórnar­þing­menn skuli ekki sjá ljósið í þessu.“