Hæstiréttur hefur vísað máli Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, frá dómi og er ljóst að hann mun þurfa fara í skýrslutöku hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra í máli Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja.

Dómur þess efnis var kveðinn upp í Hæstarétti nú fyrir stundu.

Aðalsteinn er einn fjögurra blaðamanna sem boðaðir voru til yfirheyrslu með stöðu sakbornings af lögreglunni á Akureyri vegna máls Páls.

Í máli Páls liggur fyrir játning þriðja aðila um að hafa eitrað fyrir Páli ásamt því að taka síma hans og afhenda hann fjölmiðlafólki.

Vísar málinu frá dómi

Í kjölfar boðunar til yfirheyrslu óskaði Aðalsteinn eftir því að dómstóll skæri úr um það hvort lögreglu hefði verið heimilt að kalla hann til yfirheyrslu sem sakborning í málinu og úrskurðaði héraðsdómur að henni hafi ekki verið heimilt að veita honum réttarstöðu grunaðs manns.

Hins snéri Landsréttur málinu við og vísað málinu frá héraðsdómi og taldi ekkert hafa komið fram um að lögregla hafi ekki gætt réttra formlegra aðferða þegar hún hóf rannsókn á málinu.

Aðalsteinn kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sem hefur nú tekið afstöðu og vísað málinu frá dómi.

Ekki heimild til að kæra úrskurðinn

Hæstiréttur vísar kæru Aðalsteins frá á þeim forsendum að kæruheimild til Hæstaréttar sé ekki fyrir hendi eftir að Landsréttur tók við hinu hefðbundna hlutverki áfrýjunardómstóls en þá breyttist hlutverk

Hæstaréttar og hann tekur nú aðeins afstöðu til endanlegra dómsúrlausna Landsréttar um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til dómsúrlausna Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði.

„Samkvæmt framansögðu er ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og verður málinu því vísað frá réttinum,“ segir í niðurlagi dóms Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni.

Ljóst er að málið er á upphafspunkt og hefur lögreglan á Norðurlandi eystra heimild til að kalla Aðalstein til yfirheyrslu með stöðu sakbornings.