Endurupptökudómur hefur fallist á beiðni Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi forstöðumanns eigin fjárfestinga Landsbankans, um að mál hans yrði tekið upp að nýju fyrir Hæstarétti.
Ívar, ásamt Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og Sindra Sveinssyni, fyrrverandi starfsmanns eigin fjárfestinga bankans, var dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir markaðsmisnotkun með dómi Hæstaréttar í febrúar 2016.
Málið fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, en Ívar var meðal fjögurra annara sem kærðu íslenska ríkið vegna þess að þeir töldu að þeir hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð fyrir dómi.
Í endurupptökubeiðni sinni vísaði Ívar til niðurstöðu Hæstaréttar frá því í fyrra í máli Sigurjóns, sem snéri að sama markaðsmisnotkunarmáli.
Vísaði til vanhæfi dómara
Í endurupptökubeiðni sinni færði Ívar fram þær röksemdir að einn dómaranna sem dæmdu mál hans í Hæstarétt, Viðar Már Matthíasson hafi verið vanhæfur. Hann hafi átt fjárhagslega hagsmuna að gæta af eigin hlutabréfaeign í Landsbankanum, þar sem Ívar starfaði og meint markaðsmisnotkun átt sér stað.
Í öðru lagi vísaði Ívar til þess að brotið hafi verið gegn rétti hans til milliliðalausar málsmeðferðar. Refsing Ívars fyrir Hæstarétt hafi verið þyngd úr níu mánuðum í tvö ár og var byggt á því að mun umfangsmeira brot hafi átt sér stað en héraðsdómur hafi miðað við. Ívar taldi að þetta gæti ekki staðist með tilliti til kröfunnar um milliliðalausa málsmeðferð, enda hafi Hæstiréttur vísað til munnlegra skýrslna sem gefnar voru fyrir héraðsdóms til stuðnings niðurstöðu sinni.
Mótfallinn að málið yrði tekið upp fyrir Landsrétti
Í ákvörðun um endurupptöku var litið til nýlegs máls Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP banka. Endurupptökudómur heimilaði endurupptöku máls Styrmis á sínum tíma og vísaði því til Hæstaréttar. Þegar málið var komið á borð Hæstaréttar kom fram að nauðsynlegt hefði verið að fá munnlega sönnunarfærslu til þess að geta dæmt í málinu, en Hæstiréttur hefur enga heimild til munnlegar sönnunarfærslu eftir stofnun Landsréttar, en munnleg sönnunarfærsla er aðeins gerð fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Endurupptökudómur hefði þar af leiðandi átt að vísa málinu til Landsréttar, en þar sem það var ekki gert var málinu vísað frá.
Endurupptökudómur óskaði eftir afstöðu Ívars og ríkissaksóknara um hvort vísa mætti málinu til Landsréttar, en heimild er fyrir því í lögum. Ívar var mótfallinn því og taldi ekki rétt að hann þyrfti að sæta annari málsmeðferð en aðrir sem tengdust málinu. Ríkissaksóknari taldi rétt að málinu yrði vísað til meðferðar og dómsuppsögu í Landsrétti.
Í ákvæðum endurupptökulaga segir orðrétt að heimilt sé að vísa máli sem dæmt hefur verið í Hæstarétti til meðferðar og dómsuppsögu „að nýju“ í Landsrétti. Telja verður að orðasambandið „að nýju“ vísi í mæltu máli fyrst og fremst til endurtekningar. Þar af leiðandi er einungis notast við þetta heimildarákvæði við þær aðstæður að mál hafi áður sætt meðferð og dómsuppsögu í Landsrétti og það geti þar með ekki átt við endurupptöku mála sem hafa verið dæmd í Hæstarétti án þess að hafa fengið meðferð fyrir Landsrétti.
Endurupptökudómur komst að lokum að þeirri niðurstöðu að málið yrði ekki tekið upp fyrir Landsrétti, þar sem málið hafði ekki áður fengið meðferð þar.
Málið verður því tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Hæstarétti.