Endur­upp­töku­dómur hefur fallist á beiðni Ívars Guð­jóns­sonar, fyrr­verandi for­stöðu­manns eigin fjár­festinga Lands­bankans, um að mál hans yrði tekið upp að nýju fyrir Hæsta­rétti.

Ívar, á­samt Sigur­jóni Árna­syni, fyrr­verandi banka­stjóra Lands­bankans og Sindra Sveins­syni, fyrr­verandi starfs­manns eigin fjár­festinga bankans, var dæmdur til fangelsis­refsingar fyrir markaðs­mis­notkun með dómi Hæsta­réttar í febrúar 2016.

Málið fór fyrir Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu, en Ívar var meðal fjögurra annara sem kærðu ís­lenska ríkið vegna þess að þeir töldu að þeir hafi ekki fengið rétt­láta máls­með­ferð fyrir dómi.

Í endur­upp­töku­beiðni sinni vísaði Ívar til niður­stöðu Hæsta­réttar frá því í fyrra í máli Sigur­jóns, sem snéri að sama markaðs­mis­notkunar­máli.

Vísaði til vanhæfi dómara

Í endur­upp­töku­beiðni sinni færði Ívar fram þær rök­semdir að einn dómaranna sem dæmdu mál hans í Hæsta­rétt, Viðar Már Matthías­son hafi verið van­hæfur. Hann hafi átt fjár­hags­lega hags­muna að gæta af eigin hluta­bréfa­eign í Lands­bankanum, þar sem Ívar starfaði og meint markaðs­mis­notkun átt sér stað.

Í öðru lagi vísaði Ívar til þess að brotið hafi verið gegn rétti hans til milli­liða­lausar máls­með­ferðar. Refsing Ívars fyrir Hæsta­rétt hafi verið þyngd úr níu mánuðum í tvö ár og var byggt á því að mun um­fangs­meira brot hafi átt sér stað en héraðs­dómur hafi miðað við. Ívar taldi að þetta gæti ekki staðist með til­liti til kröfunnar um milli­liða­lausa máls­með­ferð, enda hafi Hæsti­réttur vísað til munn­legra skýrslna sem gefnar voru fyrir héraðs­dóms til stuðnings niður­stöðu sinni.

Mótfallinn að málið yrði tekið upp fyrir Landsrétti

Í á­kvörðun um endur­upp­töku var litið til ný­legs máls Styrmis Þórs Braga­sonar, fyrr­verandi for­stjóra MP banka. Endur­upp­töku­dómur heimilaði endur­upp­töku máls Styrmis á sínum tíma og vísaði því til Hæsta­réttar. Þegar málið var komið á borð Hæsta­réttar kom fram að nauð­syn­legt hefði verið að fá munn­lega sönnunar­færslu til þess að geta dæmt í málinu, en Hæsti­réttur hefur enga heimild til munn­legar sönnunar­færslu eftir stofnun Lands­réttar, en munn­leg sönnunar­færsla er að­eins gerð fyrir héraðs­dómi og Lands­rétti. Endur­upp­töku­dómur hefði þar af leiðandi átt að vísa málinu til Lands­réttar, en þar sem það var ekki gert var málinu vísað frá.

Endur­upp­töku­dómur óskaði eftir af­stöðu Ívars og ríkis­sak­sóknara um hvort vísa mætti málinu til Lands­réttar, en heimild er fyrir því í lögum. Ívar var mót­fallinn því og taldi ekki rétt að hann þyrfti að sæta annari máls­með­ferð en aðrir sem tengdust málinu. Ríkis­sak­sóknari taldi rétt að málinu yrði vísað til með­ferðar og dóms­upp­sögu í Lands­rétti.

Í á­kvæðum endur­upp­töku­laga segir orð­rétt að heimilt sé að vísa máli sem dæmt hefur verið í Hæsta­rétti til með­ferðar og dóms­upp­sögu „að nýju“ í Lands­rétti. Telja verður að orða­sam­bandið „að nýju“ vísi í mæltu máli fyrst og fremst til endur­tekningar. Þar af leiðandi er einungis notast við þetta heimildar­á­kvæði við þær að­stæður að mál hafi áður sætt með­ferð og dóms­upp­sögu í Lands­rétti og það geti þar með ekki átt við endur­upp­töku mála sem hafa verið dæmd í Hæsta­rétti án þess að hafa fengið með­ferð fyrir Lands­rétti.

Endur­upp­töku­dómur komst að lokum að þeirri niður­stöðu að málið yrði ekki tekið upp fyrir Lands­rétti, þar sem málið hafði ekki áður fengið með­ferð þar.

Málið verður því tekið til með­ferðar og dóms­upp­sögu að nýju í Hæsta­rétti.