Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfum fyrirtæksins Ásbjörns Ólafssonar ehf., um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna innflutnings á landbúnaðarvörum.

Hæstiréttur snéri þar með við dómi Landsréttar frá því í mars um ólögmæti útboðsgjalds. Landsréttur dæmdi þar núverandi fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur andstætt stjórnarskránni.

Félag atvinnurekenda greinir frá málinu.

Bitni á innflutningsaðilum og neytendum

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að dómurinn sé vonbrigði að því er fram kemur á vef þeirra. Hann segir að fá árinu 2018 hafi ríkið innheimt yfir fjóra milljarða króna í útboðsgjald frá innflytjendum. Skattlagning hafi verið íþyngjandi fyrir innflutningsverslun og ekki síður neytendur.

Ólafur segir að innfluttar búvörur séu dýrari en þær þyrftu að vera vegna þessa.

„Útboðsfyrirkomulagið hefur bitnað á fyrirtækjum og neytendum og skekkt samkeppni á búvörumarkaði og mun augljóslega gera það áfram nema Alþingi breyti lögum enn á ný,“ er haft eftir Ólafi á vef þeirra.

Ríkið hefði þurft að endurgreiða yfir fjóra milljarða

Í tvígang höfðu dómstólar dæmt fyrirkomulag útboðsgjaldsins ólögmætt. Í kjölfarið breytti Alþingi lögum til að finna nýja útfærslu á álagningu gjaldsins.

Ef Hæstiréttur hefði staðfest dóm Landsréttar í dag hefði íslenska ríkið þurft að endurgreiða útboðsgjöld að upphæð yfir fjóra milljarða króna sem innheimt hafa verið af innflutningsfyrirtækjum frá árinu 2018.

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að með þeirri skattlagningu, sem falin sé í gjaldtöku fyrir tollkvóta, sé stefnt að tilteknum lögmætum markmiðum samkvæmt búvörulögum. Það verði að gefa löggjafanum talsvert svigrúm um val á leiðum að þeim markmiðum að því tilskildu að gætt sé að grundvallarsjónarmiðum stjórnarskrárinnar.

Önnur ríki hafi leyst vandamálið

Í frétt Félags atvinnurekenda segir Ólafur einnig að önnur ríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafi flest fundið leiðir til að úthluta tollfrjálsum innflutningskvótum án uppboðs, „enda er tilgangur þess að semja um að fella niður skatta af vörum í milliríkjaviðskiptum ekki sá að ríkin sem eiga aðild að fríverslunarsamningum finni síðan leiðir til að leggja samt á þeir skatta,“ segir Ólafur jafnframt.