Hæstiréttur hefur fallist á að taka fyrir mál er varðar skilgreiningu á hugtakinu stórfellt gáleysi í vátryggingarétti. Fallist er á beiðnina sökum þess að dómur réttarins gæti haft verulegt almennt gildi.

Dómur Landsréttar í málinu var kveðinn upp í byrjun febrúar. Þar voru ökumaður og vátryggjandi bifreiðar sýknuð af miskabótakröfu ökumanns annarrar bifreiðar. Báðir ökumenn voru á ferð á Bústaðavegi í júlímánuði 2014 þegar fyrrnefndi ökumaðurinn ók bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming með þeim afleiðingum að ökutækin skullu saman.

Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að ökumaðurinn sveigði yfir á rangan vegarhelming. Í matsgerð dómkvadds matsmanns kemur fram að bifreiðinni hafi verið ekið nokkuð yfir hámarkshraða eða á bilinu 64-72 km/klst. Leyfður hámarkshraði er 50 km/klst.

Félagið og ökumaðurinn voru sýknuð bæði í héraði og Landsrétti þar sem háttsemin taldist ekki stórfellt gáleysi. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði og taldi þá háttsemi að aka bifreið í veg fyrir umferð sem kemur á móti vítaverða og hlutlægt séð til þess fallna að valda stórfelldri hættu.

Hæstiréttur mun eiga lokaorðið í máli þessu en ekki liggur fyrir hvenær það verður flutt fyrir réttinum.