Hæstiréttur Íslands ómerkti í dag sýknudóm Landsréttar yfir konu sem var sökuð um hlutdeild í nauðgun konu með þroskahömlun en í niðurstöðu hæstaréttar kemur fram að ekki hafi verið tiltekið í dómnum hvort fella mætti háttsemi konunnar undir nauðgunarákvæði hegningarlaga. Málinu hefur verið vísað aftur til Landsréttar.

Í niðurstöðu hæstaréttar kom fram að af röksemdum í dóminum yrði ekki ráðið að fram hefði farið heildarmat á atvikum sem sönnuð þótti og aðstæðum sem hafði verið lýst við ákæru. „Var af þessum sökum talið óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný,“ segir í niðurstöðunni.

Tveir dómarar vildu staðfesta sýknudóminn

Hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Helgi I. Jónsson fyrrverandi hæstaréttardómari dæmdu í málinu en Benedikt og Helgi skiluðu inn séráliti þar sem þeir vildu staðfesta sýknudóminn.

Í sérálitinu kemur fram að konan hafi verið samþykk því að taka þátt í kynlífsathöfnum með brotaþola og kærasta sínum. Þegar ljóst var að það gekk ekki eftir hafi hún verið mótfallin verknaðinum sem hafi í raun leitt til þess að kærastinn lét af háttsemi sinni. Því töldu dómararnir að ekki ætti að sakfella konuna fyrir að hafa með athafnaleysi sínu átt hlutdeild í verknaðinum.

Dæmd í tveggja ára fangelsi í héraði

Ákæra á hendur konunni var gefin út í málinu þann 22. febrúar 2018 en meint brot konunnar áttu sér stað í október 2016. Kærasti konunnar var einnig ákærður í málinu en parið var sakað um að brjóta kynferðislega á brotaþola. Í kjölfarið hafi maðurinn nauðgað brotaþola á meðan konan hafi legið við hlið hennar, horft á og fróað sér.

Maðurinn lést fyrir meðferð málsins í Héraðsdómi Vestfjarða en konan var dæmd í tveggja ára fangelsi vegna málsins. Landsréttur sýknaði aftur á móti konuna þar sem ekki voru færðar sönnur að því að háttsemi sem lýst væri í dómi hafi farið fram og að konan hafi veitt liðsinni til hennar í orði eða verki.

Hafi ekki átt virkan þátt

Þá var vísað til þess að brotaþoli hafi sagt að maðurinn hafi haft samband við sig en ekki konan.

 „... ákærða hafi horft á meðan meðákærði braut gegn brotaþola. Til að sakfellt verði fyrir slíkt athafnaleysi sem hlutdeild í nauðgunarbroti verður að lágmarki að liggja fyrir að ákærða hafi áður átt virkan þátt í því að koma brotaþola í þá stöðu að meðákærði gat brotið gegn henni,“ segir í dómi Landsréttar.

Ákæruvaldið áfrýjaði dómi Landsréttar, sem féll síðastliðinn febrúar, og færðu þau rök að Landsréttur hafi með öllu litið fram hjá mikilverðum atriðum er varða hlutdeild konunnar. Landsréttur hefðu einnig ekki vikið að því að konunni var ekki einungis gefið að sök að hafa horft á kærasta sinn hafa samræði við brotaþola heldur hafi hún jafnframt legið við hlið þeirra. 

Dóm Hæstaréttar í heild sinni má nálgast hér.