Lögmaður Jóhanns Helgasonar hefur nú lagt fram formlega beiðni til Hæstaréttar Bandaríkjanna um að taka fyrir lagastuldarmál Jóhanns sem dómstólar á fyrri stigum hafa vísað frá.

Máli Jóhanns var vísað frá af dómstóli í Los Angeles á þeim grundvelli að álitsgerð tónlistarfræðings sem starfaði fyrir Jóhann uppfyllti ekki kröfur um tæknilegan samanburð á nótum í lagi hans Söknuði og í laginu You Raise Me Up annars vegar og í eldri tónsmíðar sem ekki nytu höfundarréttar. Þetta var síðan staðfest af áfrýjunardómstóli.

Bendir lögmaður Jóhanns meðal annars á í greinargerð sinni að aðeins þrír af tólf áfrýjunardómstólum Bandaríkjanna geri kröfur um sams konar samanburð og varð til þess að máli Jóhanns var vísað frá. Segir hann fjóra aðra áfrýjunardómstóla byggja á því að láta venjulega hlustendur meta líkindi laganna. Í öðrum áfrýjunardómstólum sé meira á reiki hvaða mælikvarðar séu notaðir.

Aðeins örlítið brot af málum sem send eru Hæstarétti Bandaríkjanna eru tekin þar til efnismeðferðar. Lögmaður Jóhanns segir í greinargerð sinni að fyrrnefnda aðferðin, sem varð til þess að Söknuðarmálinu var vísað frá, sé haldin rökfræðilegum ágöllum. Uppi sé mikilvægt álitamál þar sem áfrýjunardómstólum landsins beri ekki saman. Úr því þurfi hæstiréttur að skera og að mál Jóhanns sé upplagt prófmál í því skyni.

Tónlistarfyrirtækin sem Jóhann stefndi hafa út mars til andsvara.