Hæsti­réttur Ísraels hefur frestað mál­flutningi í um­deildu dóms­máli sem snýst um hvort að lagalegur grundvöllur sé fyrir því að bera Palestínu­menn út af heimilum sínum til að búa til pláss fyrir ísraelskar land­nema­byggðir. Hundruð Palestínu­manna særðust í á­tökum við lög­reglu um helgina sem lýst hefur verið sem einum verstu ó­eirðum Jerúsalem í ára­raðir. The Guar­dian greinir frá.

Fyrrum yfir­maður í varnar­málum í Ísrael lýsir á­standinu sem púður­tunnu sem er við það að springa en miklar ó­eirðir áttu sér stað fyrir utan gamla borgar­hluta Jerúsalem á laugar­dag.

Meira en 120 manns særðust, þar á meðal eins árs gamalt barn, og 14 voru fluttir á spítala, sam­kvæmt Rauða Hálf­mánanum í Palestínu. Lög­reglu­yfir­völd í Ísrael segja 17 lög­reglu­menn hafa særst í á­tökunum.

Á föstu­dag særðust yfir 200 Palestínu­menn þegar átök brutust út í kringum al-Aqsa moskuna, sem er á­litin þriðji helgasti staður íslams­trúar.

Ísrael hefur staðið undir stöðugri gagn­rýni frá al­þjóða­sam­fé­laginu vegna meintra mann­réttinda­brota þeirra gagn­vart Palestínu­mönnum. Í síðustu viku lýsti full­trúi Mann­réttinda­ráðs Sam­einuðu þjóðanna út­burði Palestínu­manna frá heimilum sínum sem mögu­legum stríðs­glæpum. Í lok apríl gáfu sam­tökin Mann­réttinda­vaktin út skýrslu þar sem fram­­göngu Ísraels­manna gegn Palestínu er lýst sem mann­réttinda­­glæpum, of­­sóknum og að­skilnaðar­­stefnu.

Segir landnema hrifsa heimili fólks með valdi

Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels, stendur fastur á sínu og segir að Ísraels­menn muni halda á­fram upp­byggingu í Jerúsalem og vísar þar í um­deildar land­nema­byggðir sem reistar hafa verið á hert­eknum svæðum þar sem flestir íbúa eru Palestínu­menn.

„Ísrael mun ekki leyfa neinum öfga­fullum öflum að grafa undan friði í Jerúsalem,“ segir Netanyahu um átök síðustu daga.

Palestínu­menn í Austur-Jerúsalem, sem inni­heldur gömlu borg Jerúsalem, hafa staðið undir yfir­vofandi þrýstingi frá ísraelskum land­nemum sem freista þess að út­víkka á­hrifa­svæði sitt í borgar­hlutanum með því að kaupa hús Palestínu­manna eða út­hýsa þeim af heimilum sínum til að reisa nýjar byggingar.

„Land­nemarnir, sem njóta stuðnings ríkis­stjórnarinnar, eru að reyna að hrifsa heimili okkar til sín með valdi,“ segir hinn 77 ára gamli Nabeel al-Kurd en fjöl­skylda hans er ein af þeim sem er í hættu á að missa heimili sitt.

Í kjöl­far vaxandi á­taka síðustu daga og að ósk ríkis­sak­sóknara frestaði hæsti­réttur Ísraels mál­flutningi í dóms­máli sem snýst um laga­legan grund­völl slíks út­burðar. Búist er við því að mál­flutningurinn fari fram innan mánaðar.

Þó er talið að frestunin muni hugsanlega ekki nægja til að hemja á­tökin. Á mánu­dag munu Ísraelar fagna Jerúsalem­deginum sem er ár­legur há­tíðis­dagur til minningar um það þegar ísraelskir her­menn náðu aftur völdum í Jerúsalem í sex daga stríðinu árið 1967. Í há­tíðar­höldum fyrri ára hafa palestínskir í­búar Jerúsalem mátt sæta miklu á­reiti frá ísraelskum þátt­tak­endum há­tíða­haldanna á ferð sinni í gegnum palestínska borgarhluta.