Alvar Óskars­son hefur óskað eftir á­frýjunar­leyfi til Hæsta­réttar vegna dóms Lands­réttar frá 26. júní síðast­liðnum. Þar var hann á­samt tveimur öðrum sak­felldur fyrir stór­fellt fíkni­efna­brot. Með beiðninni ætlar Alvar Hæsta­rétti að kveða upp for­dæmis­gefandi dóm vegna á­kvörðunar refsinga fyrir fíkni­efna­fram­leiðslu og hvað sé fram­leiðsla.

Í beiðninni er vísað til þess að Hæsti­réttur hafi að­eins einu sinni kveðið upp dóm um fram­leiðslu am­feta­míns. Það var í máli tveggja manna sem sak­felldir voru fyrir að hafa komið á fót sér­út­búinni verk­smiðju í iðnaðar­hús­næði með mikilli af­kasta­getu og staðið þar að stór­felldri am­feta­mín­fram­leiðslu. Fyrir það brot fengu mennirnir átta og tíu ára fangelsis­dóma.

Mál Al­vars og fé­laga er fyrsta mál sinnar tegundar frá því fyrr­nefndur dómur Hæsta­réttar féll árið 2010.

Refsingin í miklu ósamræmi við dóma fyrir innflutning

Málið er for­dæmis­gefandi um sak­fellingu og refsingu, þrátt fyrir að ætluð fram­leiðsla sé smærri í sniðum. Ekki er um að ræða fram­leiðslu frá grunni, og ljóst af vett­vangi að að­staðan bauð ekki upp á fram­leiðslu fíkni­efna í mörgum lotum. Alvar hlaut sex ára fangelsi í Lands­rétti.

Refsingin er í miklu ó­sam­ræmi við dóma fyrir inn­flutning á sam­bæri­legu magni efna. Vísað er til þess að í júlí var kveðinn upp dómur í þriðja fram­leiðslu­málinu. Þar voru sex menn dæmdir í þriggja og fjögurra ára fangelsi fyrir am­feta­mín­fram­leiðslu.

Flestir þeir sem þar voru dæmdir hafi á­frýjað dómi til Lands­réttar. Í því ljósi er brýnt að Hæsti­réttur taki af skarið um túlkun á­kvæðis al­mennra hegningar­laga um stór­felld fíkni­efna­brot.

Á­kvæðið er frá árinu 1974 og komið til ára sinna. Gerð er at­huga­semd við þá réttar­fram­kvæmd sem myndast hafi um á­kvæðið á sama tíma og miklar breytingar hafi orðið í sam­fé­laginu. Hæsti­réttur þurfi að taka af skarið um hvort á­kvæðið geti staðið undir mis­munandi refsingum vegna ó­líkra brota sem öll séu heim­færð á sama á­kvæðið.

Stefán Karl er verjandi Alvars Óskarssonar.

DNA á vettvangi ekki frá þeim sem voru sakfelldir

Í dómi Lands­réttar er því haldið fram að ein tegund brots sé al­var­legri en önnur. Í á­kvæðinu sjálfu er ekki gerður greinar­munur á fram­leiðslu fíkni­efna, inn­flutningi eða sölu og dreifingu og hvort einn þáttur eigi að varða þyngri refsingu en annar.

Í beiðni Al­vars eru gerðar al­var­legar at­huga­semdir við með­ferð málsins. Málið hafi verið illa rann­sakað. Þannig hafi DNA fundist í and­lits­grímum frá vett­vangi sem var ekki úr neinum þeirra sem sak­felldir voru. Ekki liggi fyrir úr hverjum það DNA er.

Þá var byggt á því að hræri­vél sem með­á­kærði keypti í Elko hafi verið notuð til fram­leiðslunnar, þrátt fyrir að sannað væri að hræri­vélin hafi verið gefin í brúðar­gjöf. Sú vél bar ekki sama fram­leiðslu­númer og vélin sem hald­lögð var í sumar­bú­staðnum.

Bar brúð­guminn vitni um gjöfina við aðal­með­ferð málsins. Í dóms­for­sendum hafi fram­burður lög­reglu­manna sem stað­hæfðu að þeir hafi verið í sjón­línu við sumar­húsið, verið lagður til grund­vallar.

Lög­reglu­mennirnir neituðu að gefa upp hvar þeir voru stað­settir við eftir­litið og báru við mikil­vægi leyndar um rann­sóknar­að­ferðir lög­reglu.

Í beiðninni segir að ó­við­unandi sé að byggja á fram­burði sjónar­votts sem neiti að til­greina hvar hann var þegar hann sá eða heyrði það sem hann beri vitni um.Rétt hefði verið að fara á vett­vang við með­ferð málsins til að sann­reyna vitnis­burð lög­reglunnar.