Hæsti­réttur er að færa sig í átt að þyngri refsingum í al­var­legum nauðgunar­málum, að mati Sig­ríðar Frið­jóns­dóttur ríkis­sak­sóknara. Þetta kemur fram í svari hennar við fyrir­spurn Frétta­blaðsins. Til­efnið er dómur sem féll í Hæsta­rétti í síðustu viku í máli tveggja manna sem dæmdir voru í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga sex­tán ára stúlku í kjallara­í­búð í Reykja­vík í febrúar árið 2017.

Málið er þannig reifað í Hæsta­rétti að stúlkan hitt ungan pilt í mið­bæ Reykja­víkur að nóttu til í febrúar 2017. Hann hafi síðar um nóttina hringt í annan á­kærða sem hafi sótt bæði piltinn og stúlkuna þar sem þau voru við tón­listar­húsið Hörpu. Hinn á­kærði hafi verið með honum í bílnum og þaðan hafi þau fjögur ekið að heimili á­kærðu en þeir og pilturinn leigðu hver sitt her­bergið í kjallara fjöl­býlis­húss.

Í fyrstu hafi þau verið öll saman í her­bergi annars á­kærða og drukkið bjór. Þar hafi annar á­kærði, karl­maður ní­tján árum eldri en stúlkan haft sam­ræði við hana eftir að hinir yfir­gáfu her­bergið. Í fram­haldi af því hafði hinn á­kærði, karl­maður fimm­tán árum eldri en stúlkan sam­ræði við hana í sínu her­bergi.

Brotin voru alvarleg og ófyrirleitin en eftir að eldri maðurinn nauðgaði stúlkunni stýrði hann henni inn í herbergi hins mannsins, sem tók við og hélt ofbeldinu áfram.

Samkvæmt dómi héraðsdóms í málinu voru brot þerra tveggja sem sakfelldir voru, alvarleg og ófyrirleitin en eftir eldri maðurinn nauðgaði stúlkunni hafi hann stýrt henni inn í herbergi hins mannsins, sem tók við og hélt ofbeldinu áfram.

Að því loknu hafi brota­þoli farið í her­bergi unga piltsins en yfir­gefið hús­næðið skömmu síðar og hringt í móður sína sem kom og sótti hana um klukkan fjögur um nóttina. Hún sagði móður sinni frá at­burðum næturinnar daginn eftir og leitaði í kjöl­farið á neyðar­mót­töku Land­spítala.

Mennirnir þrír voru allir á­kærðir fyrir nauðgun. Með héraðs­dómi voru eldri mennirnir taldir hafa mis­notað sér á­stand og að­stæður stúlkunnar í því skyni að ná fram vilja sínum og engu skeytt um vel­ferð hennar. Þeir voru sak­felldir fyrir nauðgun og dæmdir til þriggja ára fangelsis­vistar. Ungi maðurinn sem stúlkan hitti fyrr um kvöldið var sýknaður.

Refsing milduð vegna tafa á rannsókn máls

Málinu var á­frýjað til Lands­réttar og þar var sér­stak­lega dvalið við tafir sem urðu á rann­sókn málsins. Rannsókn málsins hófst sama dag og stúlkan leitaði á neyðar­mót­töku sama dag og brotin voru framin í febrúar 2017. Í dómi Lands­réttar segir að eðli­legur gangur hafi verið í rann­sókninni fram í miðjan maí. „Eftir það verður ó­út­skýrt hlé á rann­sóknar­að­gerðum í um 10 mánuði,“ segir í dóminum. Rann­sókn hafi svo verið tekin upp að nýju í mars 2018 og henni lokið í októ­ber sama ár. Á­kæra var gefin út í maí 2019 og mennirnir dæmdir í héraði nóvember það ár, 33 mánuðum eftir að brotin voru framin og rann­sókn lög­reglu hófst.

Fjórum árum eftir að konunni var nauðgað mildaði svo Lands­réttur refsingu ger­endanna um heilt ár vegna dráttar á rann­sókn málsins og dæmdi þá í tveggja ára fangelsi.

Refsingin „til muna of væg“

Hæstiréttur féllst á að taka málið til skoðunar í febrúar á þessu ári en ríkissakóknari óskaði eftir áfrýjunarleyfi réttarins. Í beiðni ríkissaksóknara kom fram að refsing í málinu væri til muna of væg að mati ákæruvaldsins. „Þá hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver sé hæfileg refsing í nauðgunarmálum og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa á ákvörðun refsingar í slíkum málum.“

Í dómi Hæsta­réttar sem féll í síðustu viku var annars vegar fjallað al­mennt um á­kvörðun refsingar og hins vegar um hvort og hvaða á­hrif dráttur á með­ferð máls eigi að hafa á á­kvörðun refsingar.

Aldur þolanda og aðferð við brot hafi áhrif

Í 194. gr. al­mennra hegningar­laga segir að refsing fyrir nauðgun skuli ekki vera skemmri en eitt ár og allt að sex­tán árum. Í dómi Hæsta­réttar segir að dóm­stólar hafi svig­rúm til á­kvörðunar refsingar innan refsi­rammans og beri að taka mið af sér­stökum refsi­þyngingar­á­stæðum vegna nauðgana, sem fest voru í 195. gr. hegningar­laganna árið 2007.

Í dóminum er vísað til greinar­gerðar með lögunum þar sem fram kemur að þol­endur hafi lítinn sál­fræði­legan og líkam­legan styrk til þess að verjast nauðgunum. Til­tölu­lega lítið of­beldi eða lítil­fjör­leg hótun geti því virkað mjög ógn­vekjandi gagn­vart börnum. Því beri að virða til þyngingar ef þolandi er barn yngra en 18 ára. Einnig horfi til þyngri refsingar ef of­beldi geranda er stór­fellt og ef brotið er framið á sér­stak­lega sárs­auka­fullan eða meiðandi hátt.

Í um­ræddu máli áttu öll þessi sjónar­mið við, að mati Hæsta­réttar. Brotin hafi verið al­var­leg og beinst að ungri stúlku, sem var ní­tján árum yngri en annar gerandinn og fimm­tán árum yngri en hinn gerandinn. Brot mannanna fólust jafn­framt í sam­ræði við stúlkuna gegn vilja hennar og fellur það undir fyrr­greint á­kvæði sem sér­lega meiðandi að­ferð og sárs­auka­full þegar um barn er að ræða. Voru þeir taldir hafa beitt stúlkuna ó­lög­mætri nauðung með því að nýta sér yfir­burða­stöðu sína sökum aldurs- og þroska­munar og þeirra að­stæðna sem stúlkan var í og höfðu gegn vilja hennar sam­ræði við hana sem stóð yfir í nokkuð langan tíma. Þeir voru ekki taldir eiga sér neinar máls­bætur.

Hæsti­réttur hefur einu sinni áður fjallað um á­kvörðun refsingar í kyn­ferðis­brota­máli frá því hann tók við nýju hlut­verki for­dæmis­gefandi dóm­stóls 1. janúar 2018 með til­komu Lands­réttar sem á­frýjunar­dóm­stóls. Niðurstaða réttarins í því máli gefur einnig vísbendingu um að Hæstiréttur aðhyllist nú þyngri refsingar í þessum brotaflokki en Landsréttur.

Í dómi sem kveðinn var upp í septem­ber í fyrra var fjallað um á­kvörðun refsingar fyrir nauðgun, blygðunar­semis­brot gegn barni og brot gegn nálgunar­banni. Á­kærði hafði fengið þriggja ára dóm í Lands­rétti en var dæmdur í sex ára fangelsi í Hæsta­rétti. Mat Hæsti­réttur það til refsi­þyngingar að brota­þolarnir voru ná­komin gerandanum, eigin­kona hans og sonur. Þá hafi nauðgunar­brot gegn konunni verið framið með sér­stak­lega meiðandi hætti.

Landsréttur mildaði sjö nauðgunardóma í fyrra

Í nýlegri fréttaskýringu fjallaði Fréttablaðið um meðferð nauðgunarmála í Landsrétti á nýliðnu ári. Þar kom fram að í sautján nauðgunarmálum sem fjallað var um í Landsrétti í fyrra var refsing milduð í sjö tilvikum. Oftast vegna tafa sem orðið höfðu á málsmeðferð.

Í dómi Hæsta­réttar í síðustu viku er vikið að þessu.

Hæstiréttur fjallar fyrst al­mennt um þá reglu að leysa beri úr máli innan hæfi­legs tíma. Reglunni sé ætlað að stuðla að trausti al­mennings til réttar­vörslu­kerfisins. Henni sé einnig ætlað að vernda aðila máls fyrir ó­hóf­legum drætti og koma í veg fyrir að sak­borningur sé of lengi í ó­vissu um réttar­stöðu sína.

Við mat á því hvort brotið hefur verið gegn máls­hraðar­eglunni beri að líta heild­stætt á málið með hlið­sjón af um­fangi og eðli þess, hvort tafir eru á á­byrgð sak­bornings eða stjórn­valds sem hefur haft málið til með­ferðar og hvort skjót úr­lausn þess er sér­stak­lega mikil­væg fyrir þann sem í hlut á.

Fjöldi dómafordæma til um áfrif dráttar á máli á refsingu

Hæsti­réttur vísar til eldri for­dæma réttarins um mat á því hvort hvort máls­með­ferðar­tíminn frá upp­hafi rann­sóknar telst úr hófi langur, hvort ó­af­sakan­legar tafir hafa orðið á máls­með­ferð á ein­staka stigum hennar hvert um­fang lög­reglu­rann­sóknar var og hvort lög­regla hafi látið hjá líða að grípa til nauð­syn­legra úr­ræða til að geta lokið rann­sókn máls. Þá er vísað til for­dæmis um að brýnt sé að ekki verði tafir á með­ferð máls fyrir dómi hafi tafir orðið á upp­hafs­með­ferð máls. Að lokum er vísað til mikil­vægis þess að með­ferð og rann­sókn máls sé hraðað eins og kostur er sæti sak­borningur gæslu­varða­haldi.

Í um­ræddu máli hafi 27 mánuðir liðið frá upp­hafi rann­sóknar þar til á­kæra var gefin út í málinu. Ó­út­skýrt hlé hafi orðið á rann­sókn lög­reglu um tíu mánaða skeið auk þess sem sjö mánuðir hafi liðið frá lokum rann­sóknar þar til á­kæra var gefin út.

Skýrar leiðbeiningar að mati ríkissaksóknara

Hæsti­réttur leggur á­herslu á að rann­sóknin hafi ekki verið mjög yfir­grips­mikil þrátt fyrir að hafa beinst að þremur ein­stak­lingum og brýnt hafi verið að hraða rann­sókn málsins eins og kostur var þar sem við brotum á­kærðu liggi þungar refsingar. Á hinn bóginn hafi á­kærðu hvorki sætt gæslu­varð­haldi né far­banni á tíma­bilinu eða öðrum þung­bærum tak­mörkunum á réttindum sínum. Þá yrði ekki talið að sá tími sem leið frá því að málið barst héraðs­sak­sóknara þar til á­kæra var gefin út hafi verið úr hófi og eðli­legur fram­gangur hafi verið í með­ferð málsins á þremur dóm­stigum.

„Að öllu þessu gættu verður með hlið­sjón af dóma­fram­kvæmd að nokkru litið til framan­greindra tafa á rann­sókn lög­reglu við á­kvörðun refsingar á­kærðu,“ segir í for­sendum Hæsta­réttar sem þyngir refsinguna sem dæmd var í Lands­rétti um eitt og hálft ár. Lands­réttur hafði hins vegar mildað þriggja ára refsingu Héraðs­dóms um heilt ár vegna tafanna.

Að­spurð segir Sig­ríður Frið­jóns­dóttir dóminn setja fram skýr sjónar­mið um hve­nær og hvernig megi taka mið af tafa á máls­með­ferð við á­kvörðun refsingar.

Umbótastarf hafið hjá lögreglu

Frétta­blaðið beindi fyrir­spurn til kyn­ferðis­brota­deildar lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu um að­gerðir til að bregðast við þeim á­hrifum sem tafir á rann­sókn máls getur haft á refsingu í nauðgunar­máli.

Í svari Ævars Pálma Pálma­sonar, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjóns hjá lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu, segir að ráðist hafi verið í skipu­lags­breytingar og um­bóta­vinnu við rann­sóknir kyn­ferðis­brota á fyrri hluta ársins 2018, það er, um það bil ári eftir að at­vik þess máls urðu sem hér um ræðir. Skipu­lags­breytingarnar hafi meðal annars lotið að því að stytta máls­með­ferðar­tíma.

„Út­búið var staf­rænt mæla­borð fyrir kyn­ferðis­brota­deild em­bættisins sem sýnir stöðuna hverju sinni, svo sem fjölda opinna mála, aldur mála og flæði mála inn og út. Auk þess voru sett á lag­girnar rann­sóknar­teymi innan deildarinnar í því skyni að draga úr á­lagi á ein­staka rann­sóknar­lög­reglu­menn og bæta yfir­sýn stjórn­enda yfir mál í rann­sókn," segir í svari Ævars Pálma.