Í tilkynningu á vef Hæstaréttar í dag segir frá heimsókn forseta Alþingis til réttarins á miðvikudaginn.

Í tilkynningunni er mynd af Steingrími J. Sigfússyni, forseta þingsins og föruneyti hans ásamt forseta og varaforseta Hæstaréttar, Benedikt Bogasyni og Ingveldi Einarsdóttur. Ingveldar hins vegar ekki getið í tilkynningunni, sem er svohljóðandi.

Forseti Alþings, Steingrímur J. Sigfússon, heimsótti Hæstarétt miðvikudaginn 12. maí 2021 ásamt Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis, Þorsteini Magnússyni varaskrifstofustjóra og Þórhalli Vilhjálmssyni forstöðumanni lagaskrifstofu. Kynntu þau sér starfsemi réttarins og húsakynni undir leiðsögn Benedikts Bogasonar forseta Hæstaréttar.

Skjáskot af vef Hæstaréttar.

Eru konur til?

Sýni­leiki kvenna í fjöl­miðlum hefur verið tölu­vert í um­ræðunni á undan­förnum árum. Haustið 2019 fóru skjá­skot af fjöl­miðla­um­fjöllun eins og eldur í sinu um sam­fé­lags­miðla þar sem sjá mátti konur í for­grunni án þess þeirra væri getið í mynda­textum. Þannig var Sigur­jóns Kjartans­sonar getið í mynd af Jónínu Leós­dóttur og karl­kyns­þing­manna getið sér­stak­lega undir mynd af Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur.

Sif Sigmarsdóttir, pistlahöfundur á Fréttablaðinu gerði þessu sérstaklega skil í pistli sínum í Frétta­blaðinu í október 2019.

Af til­kynningu Hæsta­réttar er ljóst að það eru ekki að­eins fjöl­miðlarnir sem lenda í þessari gryfju heldur einnig æðstu stofnanir ríkisins.