Hæstiréttur mun taka til endurskoðunar mál manns sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í Landsrétti í september síðastliðnum. Maðurinn var sakfelldur fyrir tvö kynferðisbrot gegn þáverandi eiginkonu sinni, endurtekin blygðunarsemis- og barnaverndarbrot gagnvart syni sínum á tilgreindu tímabili, endurtekin brot gegn nálgunarbanni og brot gegn einkalífi brotaþola með því að hafa komið fyrir eftirfararbúnaði og GPS-staðsetningartæki í bifreið hennar.

Í beiðni um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar lagði ákæruvaldið áherslu á að þriggja ára fangelsi fyrir brotin væri til muna of væg refsing. Sú niðurstaða Landsréttar að milda refsingu leyfisbeiðanda um eitt ár hafi  ekki verið rökstudd, auk þess sem refsingin sé ekki í samræmi við dómaframkvæmd. Í dóminum hafi hvorki verið litið til sakarferils ákærða til refsiþyngingar við ákvörðun refsingar, né til þess að brot leyfisbeiðanda hafi verið framið á sérstaklega meiðandi hátt.

Hæstiréttur féllst á að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um ákvörðun refsingar í málinu.

Ákæruvaldið óskar einnig endurskoðunar á túlkun Landsréttar á lagaákvæðum sem taka til skýrslutöku af barni sem vitni eða brotaþola þegar barnið er skyldmenni sakbornings en í dómi Landsréttar var vísað til þess að ekki yrði byggt á skýrslu sonar dómfellda þar sem umrædds ákvæðis hafi ekki verið gætt.

Hæstiréttur féllst einnig á að túlkun þessa ákvæðis geti haft verulegt almennt gildi og mun rétturinn taka þetta atriði til skoðunar.

Dómþolinn í málinu óskaði einnig eftir áfrýjunarleyfi og byggði á því að Landsréttar sé bersýnilega rangur vegna þess að sök hans hafi ekki verið sönnuð í öllum ákæruliðum, ekki hafi verið tekin afstaða til allra varnarástæðna hans meðal annars um ásetning sem skort hafi til brota gegn syni hans. Þá hafi málið almenna þýðingu um skýringu þeirra réttarreglna sem háttsemi hans hafi verið talin brjóta gegn.

Hæstiréttur féllst ekki á beiðni dómfellda um endurskoðun þessara þátta en í ákvörðun Hæstaréttar segir að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggi að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, vitna og brotaþola. Það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.

Þetta er í fyrsta sinn á þessu ári sem Hæstiréttur fellst á beiðni um áfrýjun sakamáls en aðeins eitt sakamál hefur komist í gegnum nálarauga Hæstaréttar frá því breyting á hlutverki réttarins tók gildi í ársbyrjun 2018. Það var mál Guðmundar Andra Ástráðssonar sem vísað var til Mannréttindadómstóls Evrópu og er nú til meðferðar hjá yfirdeild dómsins.