Hæstiréttur hefur fallist á beiðni ríkissaksóknara um áfrýjunarleyfi í máli tveggja manna sem sakfelldir voru fyrir að nauðga unglingsstúlku í febrúar 2017.

Leyfið veitir Hæstiréttur einungis í því skyni að endurskoða ákvörðun viðurlaga en ekki um sakfellingu ákærðu.

Refsingin „til muna of væg“

Í beiðni ríkissaksóknara kemur meðal annars fram það mat ákæruvaldsins að refsing í málinu sé til muna of væg. „Þá hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver sé hæfileg refsing í nauðgunarmálum og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa á ákvörðun refsingar í slíkum málum.“

„Þá hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um það hver sé hæfileg refsing í nauðgunarmálum og hvaða áhrif dráttur á málsmeðferð eigi að hafa á ákvörðun refsingar í slíkum málum.“

Skiptust á að nauðga unglingsstúlku

Hinir dómfelldu í málinu , Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski, voru sakfelldir í héraði í desember 2019 fyrir að nauðga unglingsstúlku í heimahúsi í Reykjavík í febrúar árið 2017.

Stúlkan hafði hitt kunningja mannanna, sem sýknaður var í málinu, í miðbæ Reykjavíkur, og farið með honum að heimili mannanna þriggja.

Samkvæmt dómi héraðsdóms voru brot þerra tveggja sem sakfelldir voru, alvarleg og ófyrirleitin en eftir að annar þeirra nauðgaði stúlkunni stýrði hann henni inn í herbergi hins mannsins, sem tók við og hélt ofbeldinu áfram.

Þeir voru dæmdir í þriggja ára fangelsi í héraði en refsing þeirra var milduð um eitt ár í Landsrétti, sem dæmdi þá til tveggja ára fangelsisvistar, með vísan til þess hve miklar tafir höfðu orðið á málinu.

Refsing milduð í sjö dómum í fyrra

Í nýlegri fréttaskýringu fjallaði Fréttablaðið um meðferð nauðgunarmála í Landsrétti á nýliðnu ári. Þar kom fram að í sautján nauðgunarmálum sem fjallað var um í Landsrétti í fyrra var refsing milduð í sjö tilvikum. Oftast vegna tafa sem orðið höfðu á málsmeðferð.

Fréttablaðið ræddi þessa framkvæmd við Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara sem sagði það sína tilfinningu að Hæstiréttur hafi í sinni dómaframkvæmd oft gert athugasemdir við langan málsmeðferðartíma án þess að það hafi haft áhrif á refsingu.

„Þá má einnig sjá dæmi þess að Hæstiréttur hafi engar athugasemdir gert við málsmeðferðartíma sem þó var sambærilegur við tímann í málum þar sem Landsréttur lækkar refsingar,” sagði Kolbrún.

Mikilvægt að fá fordæmi Hæstaréttar

Í niðurstöðu Hæstaréttar um málskotsbeiðni ríkissaksóknara segir að líta verði svo á að mikilvægt sé að fá úrlausn réttarins um ákvörðun viðurlaga í málinu. Hins vegar byggi niðurstaða Landsréttar um sakfellingu að hluta á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar gagnaðila, vitna og brotaþola. Það mat verði ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti.

Það er því eingöngu ákvörðun refsingar sem Hæstiréttur mun taka til skoðunar og þá væntanlega hvort og hvaða áhrif tafir á málsmeðferð eigi að hafa á refsiákvörðun.