Upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni þeirra 57 dómara sem skipaðir eru við Landsrétt og héraðsdómstólana átta, eru ekki birtar opinberlega, ólíkt upplýsingum um slíka hagsmuni hæstaréttardómara, ráðherra í ríkisstjórn og alþingismanna.

Birting fjárhagslegra hagsmuna hæstaréttardómara byggir ekki á lagalegum fyrirmælum, heldur tók rétturinn sjálfur frumkvæði að birtingu upplýsinganna í upphafi árs 2017, í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um hlutafjáreign dómara við réttinn í viðskiptabönkunum þremur í aðdraganda fjármálahrunsins. Fjöldi mála er nú til meðferðar hjá MDE vegna meints vanhæfis dómara sem töpuðu á hlutafjáreign sinni í hruninu og sátu í dómi í svonefndum hrunmálum.

Samkvæmt reglum sem settar hafa verið um aukastörf dómara og fjárhagslega hagsmuni þeirra, er nefnd um dómarastörf falið að halda skrá yfir aukastörf dómara, þátttöku í systra- og bræðrafélögum, setu í gerðardómi og um eignarhluti dómara í félögum og fyrirtækjum. Í reglunum er kveðið á um að sérstakar reglur skuli settar, í samráði við dómstólasýsluna, um opinbera birtingu framangreindra upplýsinga. Aðeins hafa verið settar reglur um birtingu upplýsinga um aukastörf dómara og eru upplýsingarnar birtar á vef dómstólasýslunnar.

Engar reglur hafa verið settar um birtingu upplýsinga um hlutafjáreign dómara í félögum og fyrirtækjum. Meðal mála dómsmálaráðherra í málaskrá ríkisstjórnarinnar, er frumvarp um breytingu á dómstólalögum þar sem segir að lagðar verði til „breytingar á reglum um hagsmunaskráningu dómara þannig að aukið verði aðgengi að upplýsingum um aukastörf dómara og fjárhagslega hagsmuni.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir óhætt að fullyrða að breytingunni sé ætlað að auka gagnsæi um hagsmuni dómara. Vinna við frumvarpið sé þó ekki komin nægilega langt til að segja meira í bili. Ólíklegt sé, einnig með hliðsjón af stöðunni í samfélaginu, að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi á yfirstandandi þingi.