Hæstiréttur Bandaríkjanna sneri rétt í þessu við dómnum Roe v Wade frá 1973, einum sögufrægasta dómi bandarískrar réttarsögu, og endaði þar með tæplega fimmtíu ára dómafordæmi sem heimilaði þungunarrof.
Frumdrögum á áliti hæstaréttardómarans Samuel Alito var lekið til fjölmiðla í byrjun maí en í þeim gefur Alito til kynna að hæstiréttur hafi ranglega ályktað í Roe v Wade á sínum tíma í ljósi þess að hvergi er minnst á þungunarrof í stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Niðurstaða hæstaréttar frá því í dag er fordæmalaus viðsnúningur sem mun vafalaust hafa víðtækar afleiðingar fyrir rétt kvenna til þungunarrofs um gjörvöll Bandaríkin. Minnst 22 fylki Bandaríkjanna hafa sett svokölluð „trigger“ lög í gildi sem banna nær alfarið þungunarrof og virkjast um leið og viðsnúningurinn á Roe v Wade tekur gildi í alríkislögum. Þá eru fjögur fylki til viðbótar talin mjög líkleg til að setja sambærileg lög.
Roe v Wade var dómsmál sem höfðað af tveimur ungum lögfræðingum árið 1973 í nafni hinnar 21 árs gömlu Normu McCorvey, sem þá bar sitt þriðja barn undir belti, gegn Henry Wade, saksóknara í Texas.
McCorvey gekk undir dulnefninu Jane Roe í öllum málsskjölum og dæmdi hæstiréttur Bandaríkjanna henni í vil sem heimilaði þungunarrof í Bandaríkin fyrstu þrjá mánuði meðgöngu með alríkislögum.
THE SUPREME COURT HAS OVERTURNED ROE V. WADE, ELIMINATING THE CONSTITUTIONAL RIGHT TO ABORTION.https://t.co/ZNYRs3QnpJ
— SCOTUSblog (@SCOTUSblog) June 24, 2022
Bein afleiðing valdatíðar Trumps
Ályktun hæstaréttar er talin vera bein afleiðing af áratugalangri baráttu kristinna íhaldsafla í Bandaríkjunum gegn þungunarrofi sem styrktist í sessi eftir að fyrrum Bandaríkjaforsetinn Donald Trump skipaði þrjá nýja hæstaréttardómara úr íhaldsarmi bandarískra stjórmála.
Búist er við að ályktunin geri það að verkum að um helmingur fylkja í Bandaríkjunum banni þungunarrof að hluta eða öllu leyti.
Í áliti sínu skrifaði hæstaréttardómarinn Samuel Alito að mál Roe og málið Planned Parenthood v Casey frá 1992 sem staðfesti stjórnarskrárbundinn rétt fólks til þungunarrofs hefði verið ranglega dæmd og því bæri að snúa þeim við.
„Við ályktum að Roe og Casey skuli snúa við. Stjórnarskráin minnist hvergi á þungunarrof og enginn slíkur réttur er skilyrðislaust verndaður af neinu stjórnarskrárbundnu skilyrði,“ skrifaði Alito.
Úrskurðurinn hefur þegar mætt mikilli andstöðu en samkvæmt skoðanakönnunum styður meirihluti Bandaríkjamanna það að viðhalda Roe v Wade.
Allir sex íhaldsdómarar hæstaréttar kusu með niðurfellingunni en hinir þrír dómararnir sem eru á frjálslyndari væng stjórnmálanna kusu gegn henni.
„Með harmi – fyrir þessum dómi, en mest þó fyrir þeim milljónum bandarískra kvenna sem misstu í dag grundvallar stjórnarskrárbundin réttindi – andmælum við þessari ályktun,“ skrifuðu dómararnir Stephen Breyer, Sonia Sotomayor og Elena Kagan í sératkvæði.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Með harmi – fyrir þessum dómi, en mest þó fyrir þeim milljónum bandarískra kvenna sem misstu í dag grundvallar stjórnarskrárbundin réttindi – andmælum við þessari ályktun.