Hæstaréttarlögmennirnir Ragnar H. Hall og Gunnar Jónsson gáfu vitnaskýrslu fyrir dómi í gær er Áslaug Björnsdóttir, fyrrverandi fjórðungseigandi og stjórnarmaður í Birni Hallgrímssyni (BH) ehf., Lyfjablóm ehf. í dag, óskaði eftir svörum um rekstur og yfirtöku Glitnis banka á BH ehf. þann 13. ágúst 2008.

Ragnar starfaði um árabil sem lögmaður BH ehf. ásamt því að sinna ýmsum verkefnum fyrir hluthafa félagsins, þar á meðal Áslaugu.

Skýrslutakan var liður í mögulegri málshöfðun núverandi eiganda Lyfjablóms vegna hugsanlegrar skaðabótaskyldrar háttsemi einstakra starfsmanna Glitnis og endurskoðendafyrirtækisins PwC í tengslum við yfirtöku Glitnis á félaginu.

Áður en skýrslutakan hófst óskaði Ragnar eftir svörum frá Jóni Þór Ólasyni, lögmanni Lyfjablóms, um hvort spyrja ætti hann um atriði sem hann kynni sjálfur að verða sóttur til bóta eða saka fyrir sem aðili. „Er verið að undirbúa málsókn á hendur mér eða Mörkinni eða ekki?“ spurði Ragnar.

Jón Þór sagði að vitnaskýrslan væri ekki liður í slíkum undirbúningi að svo stöddu. Ragnar gekkst við því að hafa gert yfirtökusamninginn og útskýrði fyrir dómi af hverju ákveðið var að fara ekki með félagið í þrot heldur láta Glitni taka það yfir.

Vitnaskýrsla yfir Gunnari varð heldur stutt er hann tók það fram að hann hefði aldrei unnið fyrir BH ehf. Var hann krafinn um svör um umboð sem Kristinn Björnsson fékk. Gunnar sendi umboðið í tölvupósti klukkan eitt að nóttu til, en sagðist ekki hafa komið að gerð þess.