Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður tók og birti mynd af Vítalíu Lazareva á Facebook story hjá sér þann 8. desember án hennar vitundar þar sem hún sést ganga frá bílastæði við Suðurlandsbraut á leið á fund með lögmanni sínum.

Vítalía greinir frá þessu á Twitter og birtir skjáskot af myndinni.

„Það er ekkert spes að lögfræðingur sem ég þekki ekki baun í bala taki mynd af mér þegar ég er að labba inn á fund að hitta minn lögmann ... Það sem er ennþá meira spes er að hann póstar myndinni á Facebookið sitt,“ segir Vítalía.

Færslan hefur vakið mikla athygli en meðal þeirra sem tjá sig um málið er Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata.

„Það er því miður þekkt taktík hjá sumum lögmönnum að reyna að hræða kærendur skjólstæðinga sinna. Í nauðgunarmálum gengur það stundum svo langt að þolendum finnst þeim „andlega nauðgað“ í réttarsal undir hörðum ásökunum verjenda sem sumir dómarar leyfa að viðgangast,“ segir þingmaðurinn.

Sakar fimm valdamikla menn um ofbeldi

Vítalía vakti athygli snemma á árinu þegar hún greindi frá ofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir af hendi fimm valdamikilla manna í samfélaginu. Hún opnaði sig í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konur, þar sem hún sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þáverandi kærasta síns og þremur vinum hans í bústaðarferð.

Sömuleiðis lýsti hún öðru aðskildu máli í golfferð þar sem hún segir vin þáverandi kærasta síns, þjóðþekktan mann, hafa gengið inn á þau. Kærastinn, sem var giftur maður, hafi viljað kaupa þögn vinarins með því að neyða Vítaliu veita honum kyn­ferðis­legan greiða.

Vítalia greindi frá því á Instagram í fyrra að kærastinn hafi verið Arnar Grant, einkaþjálfari hjá World Class og mennirnir í bústaðnum Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Vistor, Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festar og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings. Maðurinn sem hún segir að hafi gengið inn á hana og Arnar í golfferðinni hafi verið Logi Bergmann.

Mennirnir fimm hafa ýmist farið í leyfi frá störfum, stigið til hliðar úr stjórnum fyrirtækja eða verið sagt upp störfum vegna umræddra ásakana.