Svo virðist sem hæsta hita­met í sögu Evrópu hafi verið slegið á Ítalíu í dag þegar 48,8 stiga hiti mældist í borginni Syracu­se á Sikil­ey.

Ef Al­þjóða­veður­fræði­stofnunin (WMO) stað­festir tölurnar þýðir það að hæsta hita­met Evrópu er fallið en fyrra metið var slegið þegar 48 stiga hiti mældist í Aþenu árið 1977.

Gríðar­leg hita­bylgja hefur verið í kringum Mið­jarðar­hafið undan­farna daga, allt niður til Túnis og Alsír. Miklir skógar­eldar hafa geisað um Grikk­land í rúma viku og á Ítalíu hefur verið lýst yfir neyðar­á­standi vegna elda.

„Sikil­ey hefur gengið í gegnum hita­bylgju síðustu daga. Hnjúka­þeyr í vari fjallanna vestur af Syracu­se hefur lík­lega ýtt undir þau skil­yrði sem or­sökuðu 48,8 stiga hitann sem mældist þar í dag,“ segir Tre­vor Mitchell, veður­fræðingur hjá Bresku veður­stofunni.

Þá segir skoski veður­fræðingurinn Scott Dun­can að fleiri hita­met séu ó­um­flýjan­leg.

„Hættu­leg hita­bylgja sem spannar stærstan hluta Norður-Afríku og nær inn í Suður-Evrópu er að eiga sér stað um þessar mundir. Mið­punktur hitans mun færast ei­lítið til vestur og norðurs á komandi dögum,“ skrifaði hann á Twitter.

Lofts­lags­vísinda­menn hafa lengi varað við því að kol­efnis­út­blástur frá iðnaði og sam­göngum muni leiða til öfga­kenndra veður­fars. Nýjasta lofts­lags­skýrsla Milli­ríkja­nefndar Sam­einuðu þjóðanna (IPCC) sem gefin var út á mánu­dag segir að á­hrif mann­kynsins lofts­lagið séu ó­um­deilan­leg og lofts­lags­breytingar muni að­eins fara versnandi ef ekkert verður að gert.

„Þetta eru lofts­lags­breytingar í þrí­vídd. Þær eru hér. Við erum að breyta lofts­laginu á rót­tækan hátt svo heit svæði munu að­eins verða heitari og vot­lendi mun verða votara. Við munum fá meiri öfga,“ segir Owen Gaffn­ey, rann­sakandi hjá Lofts­lags­vísinda­stofnuninni í Pots­dam.