„Við höfum aldrei séð svona tölu í krónum og aurum,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

Lítrinn af bensíni stóð í tæpri 321 krónu á þjónustustöð N1 í Reykjavík við Hringbraut í gær. Dýrastur var dropinn í Hrauneyjum, 325.80 krónur. Lægsta almenna verð var að jafnaði 312-314 krónur.

Heimsmarkaðsverð á jarðefnaeldsneyti hefur meira en tvöfaldast á einu ári. Verðbólgan er að miklu leyti rakin til innrásar Rússa í Úkraínu. Kostnaðarverð á eldsneytislítra er nú á Evrópumarkaði um 146 krónur. Fyrir ári kostaði lítrinn undir 70 krónum.

Fyrir Íslendinga kemur þessi þróun sér mjög illa, þar sem skattar slaga upp í 50 prósent af verði hvers lítra. Runólfur segir að ástandið bitni mest á þeim sem búa í dreifbýli og eigi um lengstan veg að fara.

„Krafan er að fá tímabundna niðurfellingu vörugjalds bensíns og lækkun á olíugjaldi. Þetta uppsprengda verð hefur ekki bara áhrif á afkomu fólks og vísitölu heldur margfaldast þetta hressilega út í allt vöruverð,“ segir Runólfur.

FÍB hefur skorað á stjórnvöld að koma til móts við almenning með skattalækkun. Í fjármálaáætlun er áformuð breyting á sköttum ökutækja, meðal annars vegna orkuskipta. Að sögn Runólfs hefur félagið óskað eftir aðkomu, án árangurs.