Meðal þess sem Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir leggur til í minnis­blaði sínu til Svan­dísar Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra er að eftir­lit með ein­stak­lingum í heima­sótt­kví verði aukið. Þá verði sektir fyrir brot á sótt­kví hækkaðar til muna.

Sam­kvæmt nýrri reglu­gerð Svan­dísar, sem tekur gildi á morgun, verður fólk ekki lengur skikkað í far­sótta­hús og breytir þá engu hvort við­komandi sé að koma frá há­á­hættu­svæði eða ekki. Svo lengi sem við­komandi upp­fyllir kröfu um heima­sótt­kví getur hann lokið sinni sótt­kví í heima­húsi eða í hús­næði sem upp­fyllir skil­yrði og um­gengnis­reglur sam­kvæmt leið­beiningum sótt­varna­læknis. Í því felst meðal annars að ein­stak­lingur skuli vera einn á dvalar­stað en ef fleiri dveljast þar þurfa þeir að sæta sömu skil­yrðum sótt­kvíar.

Í minnis­blaði sínu, sem reglu­gerðin byggist á, segir Þór­ólfur að nauð­syn­legt sé að leita allra leiða innan gildandi laga­ramma til að lág­marka að smit berist inn í landið. Leggur Þór­ólfur meðal annars til að eftir­lit með ein­stak­lingum í heima­sótt­kví verði aukið í þeim mæli sem við­eig­andi lög heimila í sam­vinnu við al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra.

„Lík­legt er, að til að eftir­lit verði full­nægjandi þá þurfi að ráða auka mann­afla í sam­vinnu við al­manna­varna­deild. Að mínu mati er nauð­syn­legt að slíkt teymi starfaði m.a. í sam­vinnu við öll lög­reglu­em­bætti,“ segir Þór­ólfur.

Þá leggur hann til, eins og að framan greinir, að sektir vegna brota um sótt­kví verði hækkaðar til muna. „Eða að minnsta kosti tryggt að sektar­heimildir séu full­nýttar. Vinna þarf þetta í sam­vinnu við lög­reglu­em­bættin. Ætla má að auknar sektar­heimildir letji menn til að brjóta sótt­kvíar­reglur.“

Á vef stjórnar­ráðsins segir að Svan­dís Svavars­dóttir hafi komið til­lögum Þór­ólfs varðandi þetta á fram­færi við ríkis­sak­sóknara og ríkis­lög­reglu­stjóra.