Sam­fylkingin kynnti í dag 18 milljarða króna við­bótar­úr­ræði til þess að „hraða ráðningum og auka virkni á vinnu­markaði“ á blaða­manna­fundi í Naut­hól. Meðal þess sem flokkurinn lagði til var að hækka at­vinnu­leysis­trygginguna upp í 95% og lengja bóta­tíma­bilið um tólf mánuði.

Þá leggur Samfylkingin til að veittur verði tímabundinn skattafslátt­ur þegar ein­stak­ling­ar koma aft­ur til starfa eft­ir at­vinnu­leysi. Um er að ræða tvö­fald­an per­sónu­afslátt í jafn marga mánuði og ein­stak­ling­ur var at­vinnu­laus.

„At­vinnu­leysi er sóun sem við höfum ekki efni á og kostar ríkis­sjóð og auð­vitað sam­fé­lagið marga milljarða á hverju ári,“ sagði Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar. „Við viljum búa til upp­takt fyrir nýja endur­reisn og skapa frjórri jarð­veg fyrir nýja ríkis­stjórn í haust.“

„Ríkis­stjórnin hefur sýnt spilin og það er auð­vitað ýmis­legt á­gætt í þeirra að­gerðum en það er alveg út­séð með það að þau ætla ekki að gera nóg til þess að ná niður at­vinnu­leysinu á næsta ári. Þau koma ekki nóg á móts við náms­menn og eru ekki nægi­lega fram­sækin,“ sagði Logi.

Logi sagði að Sam­fylkinguna ætla ekki að líða jafn hátt at­vinnu­leysi eins og er gert ráð fyrir og vldi jafna kjör fólks í landinu.

Frá fundi Samfylkingarinnar í dag.
Ljósmynd/Skjáskot

Odd­ný G. Harðar­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, kynnti síðan ein­stakar að­gerðir flokksins. Hún sagði Sam­fylkinguna svo sannar­lega finna fyrir sömu bjart­sýni og aðrir fyrir fram­tíðinni.

„En jafn­vel þó að við sjáum fram á betri tíð þá getum við ekki horft fram hjá þeirri stað­reynd að enn eru um 20 þúsund manns at­vinnu­lausir,“ sagði Odd­ný.

„Við leggjum til að at­vinnu­leysis­bæturnar verði hækkaðar strax upp í 95% af lág­marks­tekju­tryggingunni. Þetta er til­laga sem við höfum reyndar nokkrum sinnum lagt til að hún hefur jafn oft verið felld. En um leið og við sjáum í hvað stefndi er aug­ljóst að það þyrfti að hækka bæturnar,“ sagði Odd­ný

„Jafn­vel þó að þessi til­laga hafi verið felld nokkrum sinnum gerum við okkur von um að hún verði sam­þykkt núna því það sjá allir að við verðum að lág­marka skaðann.“

Styðja ráðningar ekki uppsagnir

Ofan á þetta taldi Oddný nauð­syn­legt að lengja bóta­tíma­bilið um heilt ár.

„Nú er það svo að á undan­förnum mánuðum hafa tugir manna dottið út af at­vinnu­leysis­skrá og hætta að fá at­vinnu­leysis­bætur. Því miður mun þeim fjölga á næstu mánuðum því at­vinnu­leysis­bóta­tíma­bilið er of stutt. Það verður að lengja það og við leggjum til að það verði lengt um 12 mánuði,“ sagði Odd­ný.

Þetta mun kosta ríkis­sjóð 3,5 milljarða króna, sam­kvæmt Sam­fylkingunni.

„Við höfum ekki stutt upp­sagnir eins og ríkis­stjórnin hefur lagt til og sam­þykkt með upp­sagnar­styrkjum til fyrir­tækja við styðjum ráðningar,“ sagði Odd­ný.

Hún sagði Sam­fylkinguna hins vegar styðja ráðningar­styrki ríkis­stjórnarinnar enda væru þeir „sóttir í smiðju Sam­fylkingarinnar.“

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Oddný sagði Sam­fylkinguna hins vegar styðja ráðningar­styrki ríkis­stjórnarinnar enda væru þeir „sóttir í smiðju Sam­fylkingarinnar.“

Sam­fylkingin leggur til að ráðningar­styrkirnir verði veitta í 12 mánuði frekar en 6 mánuði eins og ríkis­stjórnin leggur til og að hærri styrkurinn nái til þeirra sem misstu vinnuna síðasta sumar.

Kostnaður um­fram nú­verandi á­ætlun ríkis­stjórnarinnar er 5,5 milljarðar að mati Sam­fylkingarinnar.

Hægt er að horfa á fundinn hér að neðan.