Samfylkingin kynnti í dag 18 milljarða króna viðbótarúrræði til þess að „hraða ráðningum og auka virkni á vinnumarkaði“ á blaðamannafundi í Nauthól. Meðal þess sem flokkurinn lagði til var að hækka atvinnuleysistrygginguna upp í 95% og lengja bótatímabilið um tólf mánuði.
Þá leggur Samfylkingin til að veittur verði tímabundinn skattafsláttur þegar einstaklingar koma aftur til starfa eftir atvinnuleysi. Um er að ræða tvöfaldan persónuafslátt í jafn marga mánuði og einstaklingur var atvinnulaus.
„Atvinnuleysi er sóun sem við höfum ekki efni á og kostar ríkissjóð og auðvitað samfélagið marga milljarða á hverju ári,“ sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. „Við viljum búa til upptakt fyrir nýja endurreisn og skapa frjórri jarðveg fyrir nýja ríkisstjórn í haust.“
„Ríkisstjórnin hefur sýnt spilin og það er auðvitað ýmislegt ágætt í þeirra aðgerðum en það er alveg útséð með það að þau ætla ekki að gera nóg til þess að ná niður atvinnuleysinu á næsta ári. Þau koma ekki nóg á móts við námsmenn og eru ekki nægilega framsækin,“ sagði Logi.
Logi sagði að Samfylkinguna ætla ekki að líða jafn hátt atvinnuleysi eins og er gert ráð fyrir og vldi jafna kjör fólks í landinu.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kynnti síðan einstakar aðgerðir flokksins. Hún sagði Samfylkinguna svo sannarlega finna fyrir sömu bjartsýni og aðrir fyrir framtíðinni.
„En jafnvel þó að við sjáum fram á betri tíð þá getum við ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að enn eru um 20 þúsund manns atvinnulausir,“ sagði Oddný.
„Við leggjum til að atvinnuleysisbæturnar verði hækkaðar strax upp í 95% af lágmarkstekjutryggingunni. Þetta er tillaga sem við höfum reyndar nokkrum sinnum lagt til að hún hefur jafn oft verið felld. En um leið og við sjáum í hvað stefndi er augljóst að það þyrfti að hækka bæturnar,“ sagði Oddný
„Jafnvel þó að þessi tillaga hafi verið felld nokkrum sinnum gerum við okkur von um að hún verði samþykkt núna því það sjá allir að við verðum að lágmarka skaðann.“
Styðja ráðningar ekki uppsagnir
Ofan á þetta taldi Oddný nauðsynlegt að lengja bótatímabilið um heilt ár.
„Nú er það svo að á undanförnum mánuðum hafa tugir manna dottið út af atvinnuleysisskrá og hætta að fá atvinnuleysisbætur. Því miður mun þeim fjölga á næstu mánuðum því atvinnuleysisbótatímabilið er of stutt. Það verður að lengja það og við leggjum til að það verði lengt um 12 mánuði,“ sagði Oddný.
Þetta mun kosta ríkissjóð 3,5 milljarða króna, samkvæmt Samfylkingunni.
„Við höfum ekki stutt uppsagnir eins og ríkisstjórnin hefur lagt til og samþykkt með uppsagnarstyrkjum til fyrirtækja við styðjum ráðningar,“ sagði Oddný.
Hún sagði Samfylkinguna hins vegar styðja ráðningarstyrki ríkisstjórnarinnar enda væru þeir „sóttir í smiðju Samfylkingarinnar.“

Oddný sagði Samfylkinguna hins vegar styðja ráðningarstyrki ríkisstjórnarinnar enda væru þeir „sóttir í smiðju Samfylkingarinnar.“
Samfylkingin leggur til að ráðningarstyrkirnir verði veitta í 12 mánuði frekar en 6 mánuði eins og ríkisstjórnin leggur til og að hærri styrkurinn nái til þeirra sem misstu vinnuna síðasta sumar.
Kostnaður umfram núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar er 5,5 milljarðar að mati Samfylkingarinnar.
Hægt er að horfa á fundinn hér að neðan.