„Þetta var bara frábær byrjun,“ segir Einar H. Haraldsson veiðivörður um laxveiðina sem hófst í Urriðafossi í Þjórsá í gærmorgun.

Leigutaki veiðisvæðisins á Urriðafossi, Stefán Sigurðsson í Iceland Outfitters, veiddi sjálfur fyrsta laxinn sem tók maðkinn nánast á augabragði. Harpa Hlín Þórðardóttir, meðeigandi og eiginkona Stefáns, veiddi síðan fljótlega næsta lax sem reyndist vera 93 sentímetra hængur. Sá fékk að synda áfram sína leið eftir stutta viðkomu á bakkanum.

Sumarið í ár verður aðeins fjórða sumarið sem veitt er á stöng í Urriðafossi. Áður fyrr var laxinn veiddur í net og stundaði Einar þá veiði um langa hríð sjálfur áður en hann lét búskapinn í hendur Haraldar sonar síns fyrir nokkrum árum.

Reyndar veiðir Einar enn í eitt net, nokkru fyrir neðan Urriðafoss. Auk þess er veitt í net víða á öðrum jörðum við Þjórsá. „Þetta getur vel farið saman ef þetta er gert lögum samkvæmt,“ bendir hann á.

Harpa Hlín Þórðardóttir, eigandi veiðileyfasölunnar Iceland Outfitters, veiddi 93 sentímetra hæng er laxveiðin hófst í gær í Urriðafossi.
fréttablaðið/anton

Urriðafoss hefur slegið í gegn meðal stangveiðimanna og hefur verið ofarlega á listum yfir veiði á hverja stöng.

„Þetta hefur gengið ótrúlega vel,“ segir Einar um stangveiðina þessi síðustu sumur. „Það hefur aukist fiskgengd í ánni sem er náttúrlega hluti af hlýnandi veðurfari og svo virðast aðstæður í ánni hafa batnað líka. Þetta er allt að hjálpast að.“

Urriðafoss er sérstaklega sterkur í veiðinni fyrri hluta sumars og eru öll veiðileyfi í júní seld. Aðspurður segir Einar að enn séu fáein veiðileyfi í júlí óseld og eitthvað í ágúst. Aðallega séu það Íslendingar sem komi til veiða. Alls veiddust níu laxar fyrir hádegi í gær.

„Laxinn virðist ganga fyrr í Þjórsá en aðrar ár. Fiskur númer tvö sem var tekinn í morgun var hængur. Hængurinn eltir alltaf hrygnuna – það er einfaldlega lögmál lífsins að karlinn eltir alltaf kerlinguna. Og að það skuli vera kominn hængur svona snemma þýðir að það er kominn fiskur í ána,“ segir Einar veiðivörður.