Hælisleitendur á Ásbrú segja aðstæðurnar vera vægast sagt óviðunandi en í færslu á Facebook síðunni Refugees in Iceland segir að Útlendingastofnun hafi síðastliðna viku takmarkað réttindi og frelsi hælisleitenda verulega. „Hlutirnir hérna eru ekki í lagi!“ segir í færslunni.

„Öryggisverðirnir eru hérna til þess að halda okkur föngnum, ekki til að „halda okkur öruggum“ eins og Útlendingastofnun heldur fram,“ segir í færslunni en íbúar hafa ekki getað yfirgefið herbergi sín í margar vikur. Þá er því bætt við að íbúar séu nú að glíma við andleg vandamál þar sem þau geta ekkert gert. „Fólk er farið að biðja um að fara sjálfviljugt aftur til Grikklands. Stað sem þau flúðu til að leita að frekara öryggi hér.“

Ein einnota gríma á mann

Að því er kemur fram í færslunni búa nú 105 manns í einni byggingu í Ásbrú og er engum heimilt að fara út úr herbergi sínu án grímu. Hver íbúi fékk aðeins eina einnota grímu á mann og er að þeirra sögn ætlast til þess að sömu grímurnar séu notaðar yfir nokkra daga tímabil. Þá hafi það komið upp að fólk hafi týnt eða hent grímunum sínum og fái ekki nýja.

Hælisleitendur á Ásbrú fá aðeins mat tvisvar á dag og eiga á hættu að fá ekkert að borða ef þeir koma ekki á réttum tíma.
Mynd/Samsett

Þá er enn fremur greint frá því að öllum sameiginlegum svæðum íbúa hafi verið lokað, til að mynda hafi eldhúsinu verið lokað og því geta íbúar ekki eldað sinn eigin mat. Íbúar fá þess í stað mat tvisvar á dag en ef þau sækja ekki matinn á réttum tíma þá fá þau ekkert að borða. Einn hafi týnt grímunni sinni og öryggisverðir neitað honum mat í þrjá daga.

Hælisleitendurnir segja nauðsynlegt að loka úrræðinu á Ásbrú eða binda enda á einangrunina. „Núna ættu allir að skilja andlega álagið við það að vera lokaður svona inni. Þetta er hræðilegt,“ segir enn fremur. „Af hverju njótum við ekki sömu réttinda og aðrir sem búa á Íslandi? Við erum líka manneskjur. Við viljum lifa og þrífast, við viljum leggja eitthvað fram til samfélagsins.“

Skiljanlegt að um erfitt inngrip sé að ræða

Úrræðið er alfarið í höndum Útlendingastofnunar en Rauði krossinn starfar sem málsvari hælisleitendanna á Ásbrú. Áshildur Linnet, teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum, segir í samtali við Fréttablaðið að um tímabundnar takmarkanir sé að ræða og að gripið hafi verið til sambærilegra takmarkana í fyrstu bylgju faraldursins til að koma í veg fyrir að smit berist inn í hópinn.

Að sögn Áshildar tóku takmarkanirnar gildi síðastliðinn miðvikudag og verða í gildi í þrjár vikur. Hún segir að Rauði krossinn hafi rætt við íbúana í síðustu viku og reynt að útskýra málið. „Auðvitað skynjum við að þetta er ekkert gleðiefni, að þurfa að undirgangast svona íþyngjandi aðgerðir.“

Þegar kemur að grímunotkun segir Áshildur að Rauði krossinn hafi staðið fyrir því að það yrði óheftur aðgangur að grímum og hafa þau fengið þau svör frá frá Útlendingastofnun um að það gildi enn. Þegar kemur að mat segir hún enn fremur að reynt sé að taka tillit til óska íbúa og virða þær.

Áshildur Linnet, teymisstjóri í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd hjá Rauða krossinum.

Samskiptavandi möguleg skýring

Hún segist skilja að staðan sem nú er uppi sé erfið fyrir hælisleitendur, sérstaklega þar sem erfitt er að miðla upplýsingum til þeirra. „Við vitum alltaf að þetta er mjög óþæginlegt og við vitum að þetta er inngrip inn í þitt sjálfstæði og þitt daglega líf.“

„Eins og staðan er núna þá er mikilvægt að fólk fái upplýsingar á tungumáli sem það skilur,“ segir Áshildur en hún segir þau hafa þurft að nýta túlkaþjónustu enn frekar. „Þetta gæti stafað af einhverju svoleiðis, að það skiljist ekki almennilega, það sé ekki nógu skýrt eða eitthvað slíkt.“

Áshildur segir mikilvægt að sá sem stendur að úrræðinu taki tillit til þess og geri fólki kleift að bera ábyrgð á eigin heilsu. Aðspurð um hvort málið verði skoðað betur segir hún að Rauði krossinn muni brýna fyrir Útlendingastofnun að bæta upplýsingagjöf.

Uppfært 15:55:

Í upprunalegu útgáfu fréttarinnar mátti skilja að Rauði krossinn sæi um úrræðið á Ásbrú en hið rétta er að Rauði krossinn starfar einungis sem málsvari hælisleitenda þar.

Færslu Refugees in Iceland má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

***COIVD-19 UPDATE FROM ÁSBRÚ REFUGEE CAMP*** We are writing from Ásbrú camp, things here are not OK! -Since one week...

Posted by Refugees in Iceland on Mánudagur, 26. október 2020