Hælisleitendur munu fá viðbót við fastar framfærslugreiðslur sínar frá ríkinu í desembermánuði. Fullorðnir einstaklingar fá 10 þúsund krónur en börn 5 þúsund. Áætlað er að aðgerðirnar muni kosta um 4,5 milljónir.

Ríkisstjórnin ákvað þetta á fundi sínum í gær. Greiðslan kemur til viðbótar við þær vikulegu greiðslur sem umsækjendur um alþjóðlega vernd fá greiddar frá ríkinu. Þær greiðslur hljóma upp á 8 þúsund krónum í fæðispeninga á viku fyrir einstaklinga, 13 þúsund krónum fyrir hjón eða sambúðarfólk og 5 þúsund krónum fyrir barn, þó aldrei hærri en sem nemur 28 þúsund fyrir hverja fjölskyldu.

Til viðbótar eiga hælisleitendur á Íslandi rétt á vikulegum greiðslum eftir fjögurra vikna dvöl á Íslandi sem nema 2.700 krónum fyrir fullorðna og þúsund krónum fyrir bar.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að ekki hafi verið til staðar reglur um viðbótargreiðslur í desember heldur hafi ákvörðun um þær verið tekin hverju sinni. Gert sé ráð fyrir að greiðslan komi af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar og að heildarkostnaður verði um 4,5 milljónir króna miðað við fjölda umsækjenda þann 13. nóvember.