Samanlagt fasteignamat íbúða á landinu hækkar um 7,9% milli ára samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þar af hækkar sérbýli um 8,2% á meðan fjölbýli hækkar um 7,7%.

Á höfuðborgarsvæðinu er almenn hækkun á íbúðarmati 8,9% en 5,2% á landsbyggðinni. Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungarvíkurkaupstað, 30,7%. Því næst er hækkunin mest í Kjósarhreppi, 29,4%, og í Ísafjarðarbæ er hún 23,6%.

Heildarmat fasteigna hækkar um 7,4% á milli ára og verður 10.340 milljarðar króna árið 2022. Um umtalsverða hækkun er að ræða en á síðasta ári hækkaði fasteignamat á landinu öllu um 2,1%.

Mesta hækkunin er á Vestfjörðum, 16,3%, en í Skorradalshreppi lækkar fasteignamat um 2,6%. Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, segir hækkunina nokkuð meiri heilt yfir landið en fyrir ári síðan og sé það í takt við þróun fasteignaverðs á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021.

„Ef við lítum aftur til 2018 þá tilkynntum við um að fasteignamat íbúða hækkaði um 12,7%, sem var töluverð hækkun, en árið eftir var svo tilkynnt um 6% hækkun á íbúðarmati. Þannig að þessi hækkun fasteignamats á íbúðarhúsnæði upp á 7,9% er vissulega há en eitthvað sem við höfum séð áður,“ segir Margrét. „Enda hækkar fasteignamatið í takt við hreyfingar á milli ára á fasteignamarkaði, sem hafa verið töluverðar síðustu árin.“

Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2022 hækkar að meðaltali um 4,1%. Mesta hækkunin er á höfuðborgarsvæðinu, 9,4%, en minnst á Vesturlandi, 1,2%.

Meðal sveitarfélaga hækkar fasteignamat sumarhúsa mest í Kópavogi, um tæp 15%.