Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara og framkvæmdastjóri Bernhöftsbakarís, segir í viðtali við Fréttablaðið að hækkun á hveiti hafi haft mikil áhrif á bakarameistara.


„Þetta er stærsta einstaka hráefnið sem við kaupum. Eftir innrásina í Úkraínu hefur þetta hækkað um tugi prósenta og eins og gefur að skilja hefur það haft mikil áhrif á okkar starfsemi í þessum geira,“ segir Sigurður og bætir við að farið hafi verið að örla á hveitiskorti um tíma.

„Margir fóru þess vegna að kaupa aðrar tegundir af hveiti sem þeir hafa ekki verið að kaupa áður þannig að erfitt er þess vegna að bera saman verð.
Sumar heildsölur hafa þó séð tugprósenta hækkanir. Aðrir vilja meina að staðan sé að batna að hluta til.“ Sigurður bætir við að ýmislegt bendi til að staðan geti verið að skána þó erfitt sé að fullyrða um það.

"Það var frétt frá Þýskalandi í gær þar sem kom fram að þrátt fyrir þennan mikla hita þá verði uppskeran nokkuð góð. Það eru virkilega jákvæðar fréttir því uppskerubrestur leiðir sjálfkrafa til mikilla hækkana ofan í þetta.“

Sigurður segir að hljóðið í bökurum sé misjafnt. Sumir séu bjartsýnir á að staðan muni skána meðan aðrir eru svartsýnir.

„Sumir heildsalar vilja meina að verðið muni ekki lækka á næstunni meðan aðrir telja að það muni lækka í haust. Það er einfaldlega of snemmt að segja til um það en við munum vita það innan tíðar.“