Umræða um verðhækkanir eins og sú sem hefur verið í samfélaginu undanfarið sem og verðbólguspár geta ýtt upp verðbólguvæntingum og haft áhrif á verðákvarðanir fyrirtækja, segir Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.

Hún bendir á að nauðsynlegt sé að hafa í huga að hækkun á hrávöruverði leiddu ekki sjálfkrafa til verðhækkana á vöru og þjónustu. Auður Alfa segir helstu drifkrafta verðbólgunnar um þessar mundir vera húsnæðisverð, þá sérstaklega reiknaða húsaleiga sem og hækkun bensínverðs.

Árshækkun húsnæðiskostnaðar mælist 9,6 prósent og bensínverð hafi hækkað um 20 prósent á einu ári.

Þá segir hún innfluttar mat- og drykkjarvörur hafa lækkað í verði á ársgrundvelli um 2,2 prósent. Á móti hafi innlend mat- og drykkjarvara hækkað um 2,3 prósent.

Í einhverjum tilfellum hafi verð lækkað og nefnir Auður Alfa dæmi um lækkun á verði raftækja og stórum heimilistækjum.

„Taka skal fram að þessir vöruflokkar hafa þó hækkað töluvert í verði frá því að faraldurinn fór af stað,“ segir hún.

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ.
mynd/aðsend

Ýmis þjónusta, einkum þjónusta tengd ferðaþjónustunni, hafi hækkað nokkuð í verði á þessu ári. Hluti þeirrar þjónustu hafi hækkað lítið í verði eða jafnvel lækkað í upphafi faraldursins. Hluti hækkana sé því tilkominn vegna þess að atvinnulífið sé að fara aftur af stað að sögn Auðar Ölfu.

„Ferðir og flutningar og flugfargjöld eru þeir þjónustuliðir sem hafa hækkað hvað mest í verði á árinu,“ segir hún.

Aðspurð hvort einhverjir hópar fólks séu líklegri til að finna fyrir vöruhækkunum segir Auður Alfa svo ekki endilega vera. Það fari eftir því hvaða liðir séu að hækka og hvernig samsetning neyslu ólíkra heimila sé.

„Allar verðhækkanir rýra kjör almennings og éta upp launahækkanir en verðhækkanir á nauðsynjavöru eins og matvöru koma verr niður á tekjulægri hópum sem eyða stærri hluta tekna sinna í slíkar vörur,“ segir Auður Alfa.

Á næsta ári muni fjölmargir kjarasamningar renna út og segir Auður Alfa að verðlagsþróun hafi áhrif á gerð samninga þar sem verðbólga hafi áhrif á kjör almennings.

„Launakjör skipta máli en það skiptir á endanum máli er hversu mikið fæst fyrir launin,“ segir hún.