Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra lýsa yfir óvissustigi Almannavarna á tveimur spásvæðum vegna veðurs sem framundan er.
Appelsínugul viðvörun tekur gildi á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og Ströndum frá klukkan ellefu í fyrramálið. Gular veðurviðvaranir eru víðast hvar á landinu frá klukkan tvö eftir miðnætti og fram til miðnættis.
Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir hlýindum um allt land á morgun og hvassri eða allhvassri sunnanátt. Spáð er ákafri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu, en þar sem ekki rignir gætu hlýindi og hnjúkaþeyr valdið hraðri snjóbráðnun sem auka líkur á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum. Á svæðunum þar sem ekki rignir er töluverður snjór og þar eru vot snjóflóð líklegri en krapaflóð og skriðuföll.
Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að við svipaðar veðuraðstæður síðustu helgi hafi krapaflóð fallið í Geirseyrargili á Patreksfirði. Flóðið hafi slest út á götu, nokkur hús og bíla. Nú virðist vera álíka mikill snjór eða jafnvel ívið meiri í gilinu og því sé ekki hægt að útiloka að svipað gerist aftur.
Þá féllu krapaflóð ofan Bíldudals, í Arnarfirði og Hnífsdal síðustu helgi, auk þess sem snjóflóð féll á Raknadalshlíð í Patreksfirði og jarðvegsskriða féll utan við Vík í Mýrdal.
Veðurstofa hvetur vegfarendur og ferðafólk til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geti borist niður. Þá eru íbúar í húsum nærri farvegum þar sem krapaflóð hafa fallið hvattir til að sýna aðgæslu og dvelja ekki að óþörfu nálægt farvegunum.
Veðurstofa gerir ráð fyrir að það kólni aftur á sunnudagskvöld og samhliða ætti að draga úr hættu á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum.
Varar fólk við að vera á ferðalagi á Norðurlandi
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, varar fólk á Norðurlandi við að vera á ferðalagi milli ellefu og fjögur á morgun.
„Sjálfur mundi ég velja annan tíma en á milli kl. 11 og 16 á morgun til að fara um Norðurland, s.s. eins og Skagafjörð, Eyjafjörð og út með til Ólafsfjaðar og Siglufjarðar. Heldur ekki yfir í Ljósvatnsskarð eða út í Kinn. Bálhvasst einnig við Djúp, einkum í kring um Ísafjörð frá því um 9 í fyrramálið og til hádegis að telja,“ skrifar Einar.
Virkja samhæfingarstöð Almannavarna
Almannavarnir biðla til vegfarenda um að vera ekki á ferðinni að óþörfu á því svæði þar sem veðrið er verst. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa áhrif á samgöngur og líkur á fokstjóni eru verulegar.
Búið er að boða til samráðsfundar Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra klukkan ellefu í fyrramálið þar sem farið verður yfir stöðuna og viðbragð á þeim svæðum þar sem veðurspá er slæm. Einnig hefur verið ákveðið að virkja Samhæfingarstöð Almannavarna klukkan tíu í fyrramálið.
Samkvæmt Veðurstofunni er von á sunnan stormi og miklu roki. Búast má við mjög snörpum og varhugaverðum vindhviðum. Varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni og nauðsynlegt er að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón.
Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Inn á umferdin.is er hægt að fylgjast með rauntímaupplýsingum um færð á vegum og á vedur.is er hægt að fylgjast með veðrinu.
Frétt uppfærð klukkan 21:29.