Ríkis­lög­reglu­stjóri í sam­ráði við lög­reglu­stjórana á Vest­fjörðum, Norður­landi vestra, Norður­landi eystra lýsa yfir ó­vissu­stigi Al­manna­varna á tveimur spásvæðum vegna veðurs sem fram­undan er.

Appel­sínu­gul viðvörun tekur gildi á Norður­landi eystra, Norður­landi vestra og Ströndum frá klukkan ellefu í fyrramálið. Gular veður­við­varanir eru víðast hvar á landinu frá klukkan tvö eftir mið­nætti og fram til mið­nættis.

Veður­stofa Ís­lands gerir ráð fyrir hlýindum um allt land á morgun og hvassri eða all­hvassri sunnan­átt. Spáð er ákafri rigningu á sunnan- og vestan­verðu landinu, en þar sem ekki rignir gætu hlýindi og hnjúka­þeyr valdið hraðri snjó­bráðnun sem auka líkur á votum snjó­flóðum, krapa­flóðum og skriðu­föllum. Á svæðunum þar sem ekki rignir er tölu­verður snjór og þar eru vot snjó­flóð lík­legri en krapa­flóð og skriðu­föll.

Á vef Veður­stofu Ís­lands kemur fram að við svipaðar veður­að­stæður síðustu helgi hafi krapa­flóð fallið í Geirs­eyrar­gili á Pat­reks­firði. Flóðið hafi slest út á götu, nokkur hús og bíla. Nú virðist vera á­líka mikill snjór eða jafn­vel ívið meiri í gilinu og því sé ekki hægt að úti­loka að svipað gerist aftur.

Þá féllu krapa­flóð ofan Bíldu­dals, í Arnar­firði og Hnífs­dal síðustu helgi, auk þess sem snjó­flóð féll á Rakna­dals­hlíð í Pat­reks­firði og jarð­vegs­skriða féll utan við Vík í Mýr­dal.

Veður­stofa hvetur veg­far­endur og ferða­fólk til að sýna að­gæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatns­far­vegum í bratt­lendi þar sem krapa­spýjur geti borist niður. Þá eru í­búar í húsum nærri far­vegum þar sem krapa­flóð hafa fallið hvattir til að sýna að­gæslu og dvelja ekki að ó­þörfu ná­lægt far­vegunum.

Veður­stofa gerir ráð fyrir að það kólni aftur á sunnu­dags­kvöld og sam­hliða ætti að draga úr hættu á votum snjó­flóðum, krapa­flóðum og skriðu­föllum.

Varar fólk við að vera á ferðalagi á Norðurlandi

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, varar fólk á Norðurlandi við að vera á ferðalagi milli ellefu og fjögur á morgun.

„Sjálfur mundi ég velja annan tíma en á milli kl. 11 og 16 á morgun til að fara um Norðurland, s.s. eins og Skagafjörð, Eyjafjörð og út með til Ólafsfjaðar og Siglufjarðar. Heldur ekki yfir í Ljósvatnsskarð eða út í Kinn. Bálhvasst einnig við Djúp, einkum í kring um Ísafjörð frá því um 9 í fyrramálið og til hádegis að telja,“ skrifar Einar.

Virkja samhæfingarstöð Almannavarna

Almannavarnir biðla til veg­far­enda um að vera ekki á ferðinni að ó­þörfu á því svæði þar sem veðrið er verst. Miklar líkur eru á að veðrið muni hafa á­hrif á sam­göngur og líkur á fok­stjóni eru veru­legar.

Búið er að boða til sam­ráðs­fundar Al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra klukkan ellefu í fyrra­málið þar sem farið verður yfir stöðuna og við­bragð á þeim svæðum þar sem veður­spá er slæm. Einnig hefur verið á­kveðið að virkja Sam­hæfingar­stöð Al­manna­varna klukkan tíu í fyrra­málið.

Sam­kvæmt Veður­stofunni er von á sunnan stormi og miklu roki. Búast má við mjög snörpum og var­huga­verðum vind­hviðum. Vara­samt verður fyrir öku­tæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni og nauð­syn­legt er að tryggja lausa­muni til að fyrir­byggja foktjón.

Fólki bent á að sýna var­kárni og fylgjast með veður­spám.


Inn á um­ferdin.is er hægt að fylgjast með raun­tíma­upp­lýsingum um færð á vegum og á vedur.is er hægt að fylgjast með veðrinu.

Frétt uppfærð klukkan 21:29.