Matvælaráðuneytið tilkynnti í vikunni að á grundvelli tillagna spretthóps um stuðning við matvælaframleiðslu myndi það greiða samtals 450 milljónir króna til búgreina sem ekki njóta framleiðslustuðnings samkvæmt búvörusamningum vegna kostnaðarhækkana við fóðuröflun.
Hér er um að ræða verksmiðjuframleiðslu á svína- og alifuglakjöti og eggjum. 225 milljónir renna til svínakjötsframleiðslu, 160 milljónir til framleiðenda alifuglakjöts og 65 milljónir til eggjaframleiðenda.
Þessir sömu framleiðendur hafa nú í kringum áramótin tilkynnt hækkanir á heildsöluverði á bilinu 3,4 til 8 prósent samkvæmt gögnum sem Fréttablaðið hefur undir höndum.
Í gær óskuðu VR, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna, Rafiðnaðarsambandið og Félag atvinnurekenda saman eftir fundi með Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til að ræða lækkun og niðurfellingu tolla í þágu neytenda.
Sérstaklega er bent á að ræða þurfi framkvæmd á útboðum tollakvóta út frá hagsmunum neytenda.