Bæjarráð Hornafjarðar samþykkti í vikunni tillögu umhverfis- og skipulagsnefndar að hækka veiðilaun vegna refa- og minkaveiða.

Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti fyrr í mánuðinum að vísa tillögu um hækkun veiðilauna til bæjarráðs.

Alls verða veiðilaunin hækkuð um 25 prósent en til þess að fá greitt þurfa einstaklingar að framvísa skotti af dýrinu ásamt fylgigögnum sem sýna fram á hvar og hvenær dýr var unnið og úr hvaða greni dýrið komi.

Greiðslur fara ekki fram fyrr en þessum gögnum hefur verið skilað en ef veiðiskýrsla er óútfyllt eða ófullnægjandi áskilur sveitarfélagið sér rétt til þess að halda eftir greiðslum.