Hlutastarfaleið stjórnvalda verður framlengd með óbreyttu sniði út júnímánuð. Eftir það mun lágmarksstarfshlutfall verða hækkað úr 25% í 50% og úrræðið áfram í boði út ágúst.

Einnig verður fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag.

Þurfa að hafa orðið fyrir 75% tekjutapi

Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þúsund króna á mánuði fyrir hvern launamann í allt að þrjá mánuði auk orlofs, eða hámark 85% af mánaðarlaunum.

Einskorðast hann við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár.

Fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að áætlað sé að um fjórðungur íslenskra fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi.

Ætlað að forða gjaldþrotum

Úrræðinu er að sögn ríkisstjórnarinnar ætlað að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er.

Það verður í boði frá 1. maí til 30. september og verður fyrirtækjum sem hyggjast nýta hana sett nánari skilyrði, til að mynda um endurkröfurétt og rekstrarhæfi fyrirtækis.

Áðurnefnd hlutastarfaleið hefur gert fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir veigamiklu tekjutapi vegna faraldurs kórónaveiru kleift að minnka starfshlutfall starfsmanna sinna sem fá þá atvinnuleysisbætur á móti. Hún hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.