„Þetta eru mér ekki vonbrigði,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, um þá staðreynd að umferð um göngin í júlí var 10 prósentum minni en í júlí í fyrra.

Umferðin um göngin var óvenju mikil í júlí í fyrra og veður ekki hagstætt í ár, sem skýrir þá þróun, að sögn Valgeirs. Hann segir að eigi að síður stefni í að fleiri bílar fari göngin á þessu ári en í fyrra.

Þegar lagafrumvarp var samþykkt um göngin vonuðust fylgjendur eftir að níu af hverjum tíu bílum myndu fara göngin þrátt fyrir gjaldtöku.

Í júlí síðastliðnum skiptist umferðin 70-30 milli ganga og Víkurskarðs.

Mun meiri bílaumferð hefur þó orðið á landinu með fjölda ferðamanna en áætlanir gerðu ráð fyrir. Af þeim sökum segir Valgeir engu að kvíða þótt hlutfall þeirra sem aki Víkurskarðið að sumri sé hærra en vonast var eftir í rekstrinum. Valgeir segir rekstur ganganna sjálfbæran eftir að heimild til að breyta fimm milljarða láni í hlutafé varð að veruleika.

„En það er ljóst að við þurfum að hækka til að göngin standi undir sér,“ segir Valgeir.

Stök ferð kostar 1.500 krónur en hægt er að kaupa ferðir á 800 krónur ef fjárfest er í 50 ferða korti. Þá segist Valgeir gera ráð fyrir að ný stjórn, sem kosin var á ársfundi á dögunum, muni herða reglur um gjaldtöku. Fram til þessa hafi mótorhjól, fjórhjól og önnur ökutæki undir einu tonni farið frítt um göngin og neyðarakstur verið heimill án gjalds. Þetta verði nú endurskoðað.

Skuldir Vaðlaheiðarganga voru um 20 milljarðar króna um síðustu áramót. Fjárhagsleg endurskipulagning hefur staðið yfir í tvö ár og hefur ríkissjóður, lánveitandi Vaðlaheiðarganga, frestað innheimtuaðgerðum.

Ríkið á um 93 prósent í göngunum en Greið leið á um 7 prósent. Akureyrarbær á stærsta hlutann í Greiðri leið.