Akureyrarbær hefur á svæði í miðbænum ákveðið að hækka verðskrá fastleigugjalda bílastæða um tæp 300 prósent milli ára.

Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, segir gjöld hafa verið allt of lág, eða rétt um 160 krónur á dag, miðað við 250 daga á ári.

Árleg fjárhæð fer úr um 40 þúsund krónum í 120 þúsund á dýrara fastleigustæðið. Annað svæði er ódýrara. Ársleiga á því svæði mun kosta 72 þúsund krónur héðan í frá.

„Við erum að horfa til þess að þarna er úthlutað ákveðnum verðmætum. Okkur fannst þetta sólarhringsgjald fulllágt, til dæmis miðað við það sem er í borginni,“ segir Þórhallur. Fólk geti lagt hvar sem er innan viðkomandi svæðis.

Þá er að hefjast gjaldtaka fyrir skammtímastæði í miðbænum. Þar hafa stæði verið gjaldfrjáls um langt skeið með notkun á bílastæðaklukkum. Ekki verður sektað fyrir stöðubrot í skammtímastæði fyrr en í mars að sögn Þórhalls, á meðan fólk lærir á nýja kerfið.

„Við teljum að nýting á stæðunum fyrir viðskiptavini bæjarins verði betri og aðgengi greiðara,“segir Þórhallur.

Spurður hvort um umhverfisvæna breytingu sé að ræða, segir Þórhallur mikinn kostnað hafa fylgt prentun á pappaskífunum. „En hann verður nú úr sögunni,“ bendir hann á.