Ríkisstjórnin kynnti í dag framhald ýmissa viðspyrnuaðgerða vegna COVID-19 í dag. Kynntar voru ýmsar aðgerðir sem eiga að styðja við fólk sem hefur annað hvort misst vinnuna eða er í hlutastarfi, við rekstraraðila og viðkvæma hópa. Atvinnuleysisbætur verða hækkaðar, hlutabótaleið framlengt auk lokunar- og tekjufallsstyrkja. Þá verður kynntur nýr styrkur fyrir rekstraraðila, viðspyrnustyrkur, sem á að tryggja góða viðspyrnu þegar bóluefni við COVID-19 verður komið.

Þá voru einnig kynntar ýmsar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa, börn og barnafjölskyldur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók fyrst til máls og kynnti ýmsar aðgerðir sem eiga að styðja við atvinnuleitendur. Þar kom að atvinnuleysisbætur hækka í rúmar 307 þúsund krónur, hlutabótaleið verður framlengd og að desemberuppbót atvinnuleitenda verður um 86 þúsund krónur.

Katrín sagði að þær aðgerðir sem nú væru kynntar ættu að koma til móts við almenning sem hefur orðið fyrir tjóni og tryggja fyrirsjáanleika. Hún sagði stærsta vandamálið vera atvinnuleysi og til að bregðast við því hefði verið mikið lagt í að fjölga störfum hjá hinum opinbera, efla nýsköpun og rannsóknir og margt annað.

Til að tryggja áframhaldandi stuðning við almenning ætlar ríkisstjórnin að framlengja hlutabótaleið. Í það hafa fyrir farið 20 milljarðar sem hafa tryggð mörgum ráðningarsamninga og virkni. Hún sagði þó einnig mikilvægt að líta til þeirra sem hafa alveg misst vinnuna og til að mæta þeim hópi verður úrræði um tekjutengdar bætur lengt, grunnatvinnuleysisbætur verða rúmar 307 þúsund og desemberuppbót atvinnuleitenda hækkar í 86 þúsund. Þá munu atvinnuleitendur sem eiga börn viðhalda 6 prósenta álagi fyrir hvert barn.

„Það munar um það,“ sagði Katrín á fundinum.

Framhald tekjufalls- og lokunarstyrkja

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti ýmsar aðgerðir fyrir rekstraraðila. Það voru viðspyrnustyrkir sem eiga að tryggja viðspyrnu þegar bóluefni er komið og rekstur kominn aftur í gang, auk þess sem hann kynnti áframhaldandi en þó breytingar á tekjufallsstyrkjum og lokunarstyrkjum.

Bjarni ítrekaði að þrátt fyrir að góðar fréttir hafi undanfarið borist um bóluefni þá verði líklega barátta langt fram á næsta ár. Þess vegna sé mikilvægt að tryggja fyrirsjáanleika fyrir rekstraraðila og stuðning langt fram á næsta ár. Hann kynnti þónokkra aðgerðir en fjallaði að mestu um viðspyrnustyrki, tekjufallsstyrkiog lokunarstyrki. Hægt verður að sækja um tekjufalls- og lokunarstyrki í næstu viku og sagði Bjarni að það myndi taka um viku að afgreiða þá.

Fjórir ráðherrar kynntu ýmsar aðgerðir í dag.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Styrkja við viðkvæma hópa

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra kynntu ýmsar aðgerðir í þágu viðkvæmra hópa og barna-og barnafjölskyldna.

Sigurður Ingi greindi frá því að alls myndi ríkisstjórnin styrkja ýmsa viðkvæma hópa um 895 milljónir. Það yrði lögð áhersla á virkni og fjárhagslegt sjálfstæði, forvarnir og að vinna gegn félagslegri einangrun.

Þá sagði hann að það yrði komið á viðbragðsteymi um fjárhagsstöðu heimilanna og að það myndi koma með tillögur að aðgerðum.

Hópar sem hann nefndi sérstaklega í þessu samhengi voru aldraðir, fatlað fólk, bæði fullorðnir og börn, innflytjendur, heimilislausir.

Hvað varðar barnafjölskyldur sagði hann frá því að skerðingarmörk barnabóta hækka í 351 þúsund á næsta ári sem mun hækka ráðstöfunartekjur tekjulágra einstaklinga og fólks í sambúð.

Ásmundur Einar sagði það skipta gríðarlegu miklu máli að aðgerðir væru fjölbreyttar.

„Það er mjög erfitt fyrir marga,“ sagði Ásmundur Einar á fundinum.

Hér að neðan má sjá glæru með yfirliti yfir þær aðgerðir sem félagslegu aðgerðir sem styrkja á við.

Félagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Skjáskot/Stjórnarráðið