Í dag spáir Veðurstofan hægri suðlægri eða breytilegri átt og dálitlum élum víða um land. Á Norður- og Austurlandi verður bjart með köflum.

Síðdegis snýst áttin í vestan 5-13 m/sek Norðan- og Austanlands, en annars verður áttin hægari og dálítil él á víð og dreif. Frost verður á bilinu 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum nyrðra.

Á morgun verður vaxandi austanátt og það þykknar upp. Annað kvöld er spáð 15-23 m/sek og slyddu eða snjókomu sunnan- og austantil, en rigningu við sjóinn. Annars verður hægara veður og nokkurn veginn þurrt. Það hlýnar líka í veðri og hiti verður á bilinu 0 til 5 stig syðst og austast annað kvöld.

Éljað hefur á vestan- og suðvestanverðu landinu í nótt og því er mikið um snjóþekju á þjóðvegum í þeim landshlutum. Mokstur er samt víðast hvar hafinn.

Færð í öllum landshlutum

Höfuðborgarsvæðið

Hálkublettir eru á öllum stofnbrautum.

Suðvesturland

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum leiðum.

Vesturland

Snjóþekja eða hálka á flestum leiðum en hálkublettir á stöku stað. Þæfingsfærð er á Fróðárheiði en mokstur stendur yfir.

Vestfirðir

Hálka eða hálkublettir víðast hvar og eitthvað um éljagang. Þæfingsfærð og éljagangur er á Hálfdán, Mikladal og á Kleifarheiði en mokstur stendur yfir.

Norðurland

Hálkublettir eða hálka eru á flestum leiðum.

Norðausturland

Hálka er á flestum leiðum.

Austurland

Hálka eða hálkublettir víðast hvar.

Suðausturland

Hálka eða snjóþekja víðast hvar en mokstur stendur yfir.

Suðurland

Snjóþekja eða hálka á flestum leiðum. Þæfingsfærð er efst á Skeiðavegi, ofan Flúða en mokstur stendur yfir.