Í dag spáir Veðurstofan hægri austlægri átt og að það verði úrkomulaust að kalla og birti allvíða til með deginum. Það verða samt austan 8-13 m/s og él syðst á landinu.

Á morgun verður suðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og dálítil él á víð og dreif, en það verður léttskýjað norðaustanlands. Það bætir svo í vind vestast annað kvöld.

Það verður frostlaust að deginum við suður- og vesturströndina, en annars frost, 0 til 10 stig, kaldast fyrir norðan.

Hvassviðri á föstudag

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að í nótt hafi kuldinn farið niður í 13 stiga frost á Sauðárkróksflugvelli. Þar kemur líka fram að á föstudag sé útlit fyrir hvassa suðaustan- og austanátt sunnantil á landinu. Henni fylgir rigning eða slydda á láglendi, en snjókoma til fjalla. Á norðanverðu landinu verður hins vegar þurrt og hægari vindur. Það hlýnar þegar þetta hvassviðri kemur.

Færð á vegum

Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða nokkur hálka. Krap er á kafla fyrir austan Vík í Mýrdal.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálítil él á víð og dreif, en léttskýjað norðaustantil á landinu. Frost 0 til 10 stig, kaldast á Norðausturlandi, en frostlaust við suður- og vesturströndina að deginum.

Á föstudag:

Gengur í suðaustan og austan 15-23 á sunnanverðu landinu með rigningu eða slyddu á láglendi. Hiti 1 til 5 stig. Hægari vindur norðantil, þurrt og minnkandi frost.

Á laugardag:

Austan 10-18, hvassast á Suðausturlandi. Rigning eða slydda á láglendi sunnan- og austanlands, en þurrt á Norður- og Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag og mánudag:

Suðaustan- og austanátt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt norðanlands. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir minnkandi vind og styttir upp að mestu á landinu. Hiti kringum frostmark.