Veðurstofan spáir norðaustan 5-13 m/s í dag, en hægari vind síðdegis. Von er á dálitlum éljum norðan- og austanlands,  en það verður skýjað með köflum suðvestanlands og líkur á éjum þar um tíma í dag.

Á morgun hvessir nokkuð og það verða norðaustan 8-15 m/s og snjókoma með köflum á austanverðu landinu og él norðvestantil, en annars verður bjartviðri. Frost verður yfirleitt 0 til 8 stig, mest inn til landsins, en mildara yfir daginn.

Á fimmtudag verður svo austlægari vindur og snjókoma syðst á landinu, en annars úrkomulaust að kalla. Áfram verður kalt í veðri, en það hlýnar víða upp fyrir frostmark yfir hádaginn.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Hálkublettir og éljagangur eru á Hellisheiði, í Þrengslum, á Mosfellsheiði og Kjósarskarði en að öðru leiti er greiðfært. 

Vesturland: Greiðfært er í Borgarfirði og á Mýrum en hálka, hálkublettir eða snjóþekja á öðrum leiðum. M.a. eru hálkublettir á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, hálka á Vatnaleið og snjóþekja á Svínadal. 

Vestfirðir: Víðast hvar hálka, hálkublettir eða snjóþekja. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum.

Norðurland: Hálka er á Öxnadalsheiði og í Öxnadal en að öðru leiti er Þjóðvegur 1 að mestu greiðfær utan hálkubletti í Hrútafirði. Hálka eða snjóþekja víða á útvegum en þæfingsfærð er í Almenningum. 

Norðausturland: Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum öðrum leiðum og éljagangur með ströndinni. 

Austurland: Víðast hvar hálka eða hálkublettir en þó snjóþekja víða á útvegum. 

Suðausturland: Hálkublettir eru vestan Öræfa að Vík en greiðfært að öðru leiti. 

Suðurland: Hálka eða hálkublettir víða og éljagangur.