Til stendur að nýtt 2.822 fermetra flugskýli fyrir Landhelgisgæslu Íslands á Reykjavíkurflugvelli verði tilbúið fyrir mitt næsta ár. Leiga á nýjum þyrlum hefur gert það að verkum að loftförin rúmast ekki lengur í húsnæðinu. Gerð verður tengibygging á milli núverandi flugskýlis og þess nýja, í þeirri byggingu verður ný starfsmannaaðstaða.

Ólöf Birna Ólafsdóttir, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar, nefndi sem dæmi á blaðamannafundi í gær að búningsaðstaða kvenna væri mjög lítil. Þá væri einnig óviðunandi aðstaða til að fara í sturtu fyrir sjóblauta starfsmenn.

Reykjavíkurborg hefur framlengt landnotkun vegna flugvallarins í Vatnsmýri til 2032. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að hugað hafi verið að því.

„Þetta var samþykkt í þessari mynd. Það er mjög mikilvægt að fá upp þessa byggingu fyrir Landhelgisgæsluna til að geta svarað þeim þörfum sem eru núna vegna stærri þyrluflota,“ segir Áslaug Arna.

„Að sjálfsögðu er flugvöllurinn enn víkjandi í skipulagi Reykjavíkurborgar og þess vegna er þetta gert með þeim hætti að ef til framtíðar þurfi að flytja gæsluna annað þá verði það gert eins auðvelt og mögulegt er.“